Ekki tjáir að deila við dómarann þótt menn séu ekki alltaf sáttir við ákvarðanir hans á svellinu. Dómar utan svellsins geta líka sett strik í reikninginn, eins og raunin er núna eftir dóm dómstóls ÍSÍ og óvissu um úrslitakeppni Íslandsmóts karla. Mynd: Skapti Hallgrímsson.
Óvissa er um úrslitakeppni Íslandsmóts karla í íshokkí eftir dóm dómstóls ÍSÍ vegna leiks SA og SR 22. febrúar sem fram fór í Skautahöllinni í Reykjavík og SR vann 3-0. Fjölnir lagði fram kæru vegna leiksins og tók dómstóllinn málsástæður Fjölnis til greina og dæmdi leikinn tapaðan fyrir SR, 0-10. Dómurinn féll í gær og er aðeins stuttlega sagt frá honum á vef Íshokkísambandsins. Þar segir að ljóst sé að dómurinn hafi áhrif á úrslitakeppnina sem er fram undan og að stjórn ÍHÍ muni „koma saman fljótt og fara yfir dóminn“.
Óvissan liggur annars vegar í því hver niðurstaðan í málinu verður og hvenær endanleg niðurstaða fæst. Úrslitakeppni karla átti að hefjast laugardaginn 29. mars. Dómstóll ÍSÍ kvað upp sinn úrskurð í gær og var niðurstaðan send til stjórnar ÍHÍ og félaganna sem eiga aðild að málinu, SR og Fjölnis. Ljóst er að áfrýjunarfrestur sem SR hefur og tími sem áfrýjunardómstóll ÍSÍ gæti tekið sér til að staðfesta dóminn eða snúa honum við munu hafa áhrif á það hvenær hægt verður að hefja úrslitakeppnina, hvort sem það yrði SR eða Fjölnir sem myndi þá mæta SA. Tíminn til stefnu er ekki mikill því A-landslið karla heldur til Nýja-Sjálands til þátttöku í HM í lok apríl.
Framkvæmd félagaskipta véfengd
Dómurinn hefur ekki verið birtur á vef dómstóls ÍSÍ, en samkvæmt upplýsingum sem
akureyri.net hefur aflað sér snýst málið um framkvæmd félagaskipta fyrir Conor White, markvörð sem SR fékk til sín í febrúar. Í
frétt á vef ÍHÍ þann 22. febrúar er tilkynnt um leikheimild Conors White, en hann lék á árum áður með Birninum/Fjölni. SR óskaði eftir endurskráningu og leikheimild og segir í fréttinni að félagaskiptagjald hafi verið greitt og lögð fram gögn til staðfestingar á íslenskum ríkisborgararétti. „Því telst Conor Hugh White löglegur leikmaður á Íslandsmótinu í íshokkí með Skautafélagi Reykjavíkur frá deginum í dag að telja,“ segir í niðurlagi fréttarinnar.
Um félagaskipti á miðju tímabili gildir að stjórn ÍHÍ þarf að samþykkja þau samhljóða, en samkvæmt heimildum akureyri.net gekk framkvæmdastjóri ÍHÍ frá félagaskiptunum.
Í reglugerð ÍHÍ nr. 9 um félagaskipti segir meðal annars að félagaskiptum innan keppnistímabils, frá 1. október til og með 31. maí, skuli í öllum tilvikum synjað nema með ákveðnum undantekningum sem fram koma í reglugerðinni. Í 10. grein segir meðal annars að stjórn ÍHÍ geti veitt undanþágu fyrir félagaskiptum bæði íslenskra og erlendra leikmanna telji stjórnin það rétt og sanngjarnt. „Skilyrði fyrir slíkri undanþágu er að hún sé samþykkt samhljóða í stjórn ÍHÍ.“ Að auki er aðeins leyfilegt að hafa tvo markverði á skýrslu hverju sinni, en Conor White var þriðji markvörður SR í umræddum leik. Hann kom svo reyndar ekkert við sögu í leiknum sjálfum.
Jöfn að stigum, markatala ræður
Miðað við stöðuna eins og hún var að lokinni keppni í Toppdeild karla, áður en kæra Fjölnis kom til, hefðu lið Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjavíkur átt að mætast í einvígi um Íslandsmeistaratitilinn. Lið SA vann deildina, hlaut 38 stig, Íslandsmeistarar SR enduðu í 2. sæti með 31 stig og Fjölnir í 3. sæti með 28 stig. Ef niðurstaða dómstóls ÍSÍ stendur fer SR niður í 28 stig, eins og Fjölnir.

Lokastaðan í Toppdeild karla áður en til kærunnar og dómsins kom. Skjáskot af vef ÍHÍ.
Um röðun liða sem eru jöfn að stigum segir í 4. grein a í reglugerð ÍHÍ nr. 13 um Íslandsmótið í íshokkí:
„Séu lið jöfn að stigum eftir forkeppni gildir markatala en sé hún einnig jöfn gildir markatala í innbyrðis viðureignum. Ef markatala úr innbyrðis viðureignum er einnig jöfn gilda fleiri mörk á útivelli. Sé það einnig jafnt skal spila úrslitaleik um sæti í úrslitum en kasta upp á valrétt um leikstað.“
Mögulega má svo deila um það hvað átt er við með orðinu markatala, en ljóst að Fjölnir er með betri markamun en SR þegar 3-0 sigurinn er tekinn af SR og 0-10 tapið kemur inn í töfluna.
Markatala fyrir dóm:
- SR 89-66 = +23
- Fjölnir 77-64 = +13
Markatala eftir dóm
- SR 86-76 = +10
- Fjölnir 77-64 = +13