Fara í efni
KA

Tvö mörk í lokin og enn eru KA og Víkingur jöfn

Elfar Árni Aðalsteinsson, hér í leiknum gegn Breiðabliki á dögunum, tryggði KA eitt stig í Víkinni í dag með marki á lokaandartökum leiksins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA og Víkingur eru áfram jöfn að stigum í 2. til 3. sæti Bestu deildarinnar, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, eftir að liðin gerðu 2:2 jafntefli í dag í Víkinni. Reykjavíkurliðið telst þó ofar þar sem markatala þess er mun betri.

Ari Sigurpálsson kom Víkingum í 1:0 þegar stundarfjórðungur var liðinn en Ásgeir Sig­ur­geirs­son jafnaði fyr­ir KA seint í fyrri hálfleik. Klaufalegum varnarleik var um að kenna í bæði skiptin; Víkingar skoruðu eftir sannkallað hraðaupphlaup í framhaldi þess að KA átti hornspyrnu og jöfnunarmarkið var þannig að Þórður Ingason, markvörður Víkings, hugðist spyrna boltanum fram völlinn þegar hann fékk slæma sendingu frá varnarmanni en þrumaði í Ásgeir og af honum fór boltinn í netið.

Helgi Guðjóns­son kom Víkingi yfir á ný þegar um þrjár mínútur voru eftir af leiknum en KA átti þó síðasta orðið; Elfar Árni Aðalsteinsson skallaði mark Víkings eftir hornspyrnu þegar komið var í uppbótartíma.

Bæði Víkingur og KA hafa tryggt sér þátttökurétt í Evrópukeppni á næsta ári eins og áður hefur komið fram.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.