Fara í efni
KA

Tvö mörk í blálokin og KA fékk eitt stig

Jakob Snær Árnason jafnaði fyrir KA á síðustu stundu í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Vondri viku KA-manna lauk í dag en þó betur en á horfðist, þegar þeir gerðu 2:2 jafntefli gegn Frömurum í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu.

Liðin mættust á Framvellinum í Úlfarsárdal í Reykjavík í kvöld, heimamenn voru 2:0 yfir þegar vallarklukkan sýndi að hinar hefðbundnu 90 mínútur væru liðnar, en KA-strákarnir gáfust ekki upp og skoruðu tvisvar á þeim fjórum mínútum sem bætt var við vegna tafa og skiptinga! 

Gaber Dobrovoljc gerði fyrra markið með skalla eftir hornspyrnu og Jakob Snær Árnason jafnaði með skoti úr þröngu færi, um það bil hálfri mínútu áður en dómarinn flautaði til leiksloka.

KA tapaði um síðustu helgi fyrir Víkingi á heimavelli í deildinni og fyrir FH í undanúrslitum bikarkeppninnar í Hafnarfirði á fimmtudaginn. Útlitið var ekki gott í dag, Framarar voru betri og KA-menn náðu sér raunverulega ekki á strik fyrr en í blálokin en seiglan skilaði þeim einu stigi. Ekki er að undra að liðið sýndi ekki sparihliðarnar í dag því þreyta hlýtur að sitja í mönnum eftir svona törn. En það sannaði sig hve dýrmætt er að gefjast aldrei upp!

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

KA er áfram í öðru sæti deildarinnar, hefur nú 37 stig eftir 20 leiki.

Breiðablik er efst með 45 stig og Víkingur er með 36. Bæði hafa lokið 19 leikjum; Víkingur gerði jafntefli við ÍBV í dag og á inni frestaðan leiki við Leikni en Breiðablik mætir Val á morgun.

Tvær umferðir eru nú eftir að hinni hefðbundnu Bestu deild, áður en einföld „framlenging“ sex liða hefst. Eftir hana liggur ljóst fyrir hvaða liða verður Íslandsmeistari og hverjir fara í Evrópukeppni.