Fara í efni
KA

Tvö mörk Ásgeirs og KA fékk öll stigin

Ásgeir Sigurgeirsson gerði bæði mörk KA í sigrinum á HK í Kópavogi í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn gerðu góða ferð í Kórinn í Kópavogi í dag þar sem þeir sigruðu öflugt lið HK 2:1 í 6. umferð Bestu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Heimamenn gerðu eina mark fyrri hálfleiks en Ásgeir Sigurgeirsson, sem var skipt inná í upphafi seinni hálfleiks, gerði bæði mörk KA.

HK-ingar voru betri í fyrri hálfleiknum, vörðust mjög vel og beittu hættulegum skyndisóknum eins og þeir eru þekktir fyrir. KA-menn ollu vonbrigðum, virtust ekki nógu vel stemmdir og komust ekkert áleiðis gegn duglegum heimamönnum.

Það var Marciano Aziz sem skoraði fyrir HK á 22. mínútu. Hann fékk boltann framarlega vinstra megin á vellinum, lék í átt að vítateignum lét vaða að marki; boltinn fór í Dusan Brkovic varnarmann KA, breytti aðeins um stefnu og sveif efst í hornið fjær. Glæsilegt mark.

Góður seinni hálfleikur

Hallgrímur Jónasson þjálfari KA hélt augljóslega vel heppnaða ræðu yfir sínum mönnum í hálfleikshléinu. Allt annað var að sjá þá þegar leikurinn hófst á ný. Hallgrímur tók m.a. þá snjöllu ákvörðun að skipta Ásgeiri Sigurgeirssyni inná í stað Pæturs Petersen, fyrirliðinn er alltaf mjög viljugur, gefur aldrei þumlung eftir og kraftur hans smitaði út frá sér.

Fyrra markið gerði Ásgeir á 61. mín. Skoraði auðveldlega eftir góðan undirbúning Hallgríms Mar Steingrímssonar, sem vann boltann af varnarmanni framarlega, vinstra megin á vellinum, lék upp undir endamörk og sendi inn á markteiginn. Þar var Ásgeir aleinn og óvaldaður, ótrúlegt en satt, og skoraði auðveldlega.

Ásgeir hafði heldur betur meira fyrir sigurmarkinu; hann vann boltann af HK-ingi rétt fyrir aftan miðjan vallarhelming KA, tók á rás og lék framhjá hverjum andstæðingnum af öðrum. Ásgeir komst alla leið inn á vítateig þar sem þrír varnarmenn höfðu ekki erindi sem erfiði og framherjinn kórónaði frábæran sprett með því að skora með hnitmiðuðu skoti vinstra megin úr teignum í fjærhornið. Frábærlega gert hjá fyrirliða KA.

Bara ein leið að enda svona sprett!

Ásgeir var beðinn um að lýsa markinu í viðtali við mbl.is. „Ef ég man þetta rétt áttu þeir innkast sem ég næ að lesa og kemst inní. Ég næ að hlaupa upp völl­inn, þeir reyndu að brjóta á mér en náðu því ekki svo ég næ að koma mér al­veg vinstra meg­in við markið og setja bolt­ann hægra meg­in við mark­mann­inn,“ sagði Ásgeir.

Hann sagði það hafa verið hugs­un­in all­an tím­ann eft­ir að hann vann bolt­ann að hann væri að fara að skora. „Já alltaf! Maður legg­ur ekk­ert af stað upp völl­inn án þess að ætla að skora og þegar maður nær svona spretti er bara ein leið til að enda hann.“ Nánar hér

Með sigrinum fór KA upp fyrir HK á stöðutöflunni. Eftir þrjá sigra, tvö jafntefli og eitt tap er KA með 11 stig og í þriðja sæti deildarinnar sem stendur.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna