Fara í efni
KA

Tvíburarnir semja við KA út sumarið 2024

Tvíburabræðurnir Nökkvi Þeyr og Þorri Mar Þórissynir hafa báðir framlengt samning við knattspyrnudeild KA og eru nú samningsbundnir félaginu út sumarið 2024. Greint er frá þessu á heimasíðu KA. „Þetta eru frábærar fréttir enda hafa bræðurnir verið ákaflega öflugir í gula og bláa búningnum og orðnir algjörir lykilmenn í KA liðinu,“ segir þar.

„Bræðurnir sem eru 22 ára gamlir gengu til liðs við KA fyrir sumarið 2019 en þar áður höfðu þeir meðal annars verið á mála hjá Hannover 96 í Þýskalandi. Nökkvi Þeyr skoraði 3 mörk fyrir KA í sumar og hefur nú gert 8 mörk fyrir félagið í deild og bikar.

Þorri Mar leikur aftar á vellinum og stóð sig frábærlega í stöðu bakvarðar á nýliðnu tímabili. Hann var meðal annars verðlaunaður fyrir frammistöðu sína með því að vera kjörinn efnilegasti leikmaður liðsins.

KA endaði í 4. sæti Pepsi Max deildarinnar á síðustu leiktíð og alveg ljóst að liðið ætlar sér enn stærri hluti á næsta tímabili. Það er stórt skref í undirbúningnum fyrir komandi sumar að halda þeim bræðrum áfram innan okkar raða,“ segir á heimasíðu KA.