Fara í efni
KA

Tveir mjög mikilvægir leikir í KA-heimilinu

Lydía Gunnþórsdóttir og Ragnar Snær Njálsson verða bæði í eldlínunni í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Tveir mjög mikilvægir handboltaleikir eru á dagskrá í KA-heimilinu í dag, annars vegar í efstu deild kvenna, hins vegar í átta liða úrslitum bikarkeppni karla.

  • KA/Þór tekur á móti Haukum í sannkölluðum fjögurra stiga leik í Olísdeild kvenna klukkan 17.30.

Liðin eru bæði með 10 stig, í fimmta og sjötta sæti, en Stelpurnar okkar eiga einn leik til góða. Hæpið er að annað hvort liðið komist upp í fjórða sæti þótt nokkrir leikir séu eftir, því þar er Fram með 19 stig, en fyrsta skrefið í lokabaráttunni er að enda ofar en Haukar.

  • Karlalið KA og Aftureldingar mætast svo klukkan 20.00 í átta liða úrslitum bikarkeppninnar.

Sigurliðið kemst í bikarúrslitahelgina; KA lék til úrslita í fyrra, allir vita hve mikil stemning skapast í kringum slíkt ævintýri og því leggja KA-menn allt í sölurnar til að komast aftur í fjögurra liða úrslitin á ný.

KA-TV sýnir leik KA/Þórs og Hauka beint á YouTube. Hægt verður að horfa á leikinn ókeypis en viðureign KA og Aftureldingar verður í beinni útsendingu á RÚV 2. 

Smellið hér til að horfa á kvennaleikinn.