Fara í efni
KA

Toppslagur sýndur beint á Akureyri.net

Tvö langbestu kvennalið landsins í blaki, KA og Afturelding, mætast í kvöld í KA-heimilinu og segja má að þar sé deildarmeistaratitillinn í húfi þótt nokkrir leikir séu eftir.

Leikurinn verður sýndur beint á sjónvarpsrás KA og hægt verður að fylgjast með útsendingunni hér á Akureyri.net. Þetta er í fyrsta skipti sem  það er í boði en örugglega ekki í síðasta skipti sem mögulegt verður að horfa á beinar útsendingar í gegnum Akureyri.net. Leikurinn hefst klukkan 20.30 og frétt birtist hér á vefnum klukkan 20.15 þar sem hægt verður að horfa á leikinn.

KA og Afturelding hafa mæst tvisvar í vetur og í bæði skiptin vann útiliðið; KA vann 3:0 í Mosfellsbæ í frábærum leik í október – 31:29, 25:21, 27:25 – og Afturelding vann í KA-heimilinu í desember – 25:21, 25:21, 25:20. Þetta eru einu töp liðanna í vetur.

Athugið – Sumir skildu upphaflegu fréttina þannig að Akureyri.net kæmi að einhverju leyti að beinu útsendingunni frá blakleiknum. Sú er ekki raunin heldur er boðið upp á þann mögulega að horfa hér á útsendingu sjónvarpsrásar KA, KATV. Það var aldeilis ekki ætlun Akureyri.net að gera útsendinguna að sinni, einungis að vekja athygli enn fleiri en ella á hörkuleik tveggja bestu liða landsins.