Fara í efni
KA

Tíu KA-menn náðu einu stigi gegn HK

Dusan rekinn út af! Einni mínútu og 26 sekúndum eftir að Sigurður Þrastarson flautaði til leiks braut Dusan Brkovic á Atla Hrafni Andrasyni sem var komin einn inn fyrir vörn KA, Sigurður blés aftur í flautu sína og sýndi Dusan rauða spjaldið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA og HK gerðu 1:1 jafntefli í 17. umferð Bestu deildar karla, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu í dag. Jakob Snær Árnason gerði mark KA í fyrri hálfleik en Ahmad Faqa jafnaði metin fyrir HK í upphafi seinni hálfleiks.

Leikurinn byrjaði vægast sagt illa fyrir heimamenn því Dusan Brkovic fékk að líta rauða spjaldið þegar aðeins ein og hálf mínúta var liðin. Dusan lenti í kapphlaupi við Atli Hrafn Andrason sem hann tapaði, það endaði með því að KA-maðurinn felldi Atla rétt utan teigs. Sigurður Hjörtur Þrastarsson, dómari leiksins sá engan annan kost en að reka Dusan útaf. KA-menn þurftu því að leika manni færri nánast allan leikinn.

Hallgrímur Jónasson gerði töluverðar breytingar á liðinu frá sigrinum gegn Dundalk á fimmtudaginn var. En KA-menn standa í ströngu þessa dagana og margir leikir fram undan. Tveir nýjustu leikmenn KA, þeir Alex Freyr Elísson og Jóan Símun Edmundsson byrjuðu sína fyrstu leiki með liðinu.

Þrátt fyrir þetta áfall var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik og á stórum köflum var ekki endilega að sjá að KA-menn væru manni færri. Á 34. mínútu kom Jakob Snær Árnason KA-mönnum yfir. Jakob fékk boltann rétt utan vítateigs vinstra megin. Hann fíflaði Ahmad Faqa gjörsamlega upp úr skónum með góðum snúningi, keyrði inn á teiginn og skoraði með föstu uppi í nær hornið. Staðan var 1:0 heimamönnum í vil þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Jakob Snær Árnason nær forystu fyrir KA eftir rúmlega hálftíma; hann plataði varnarmann HK upp úr skónum og þrumaði boltanum í nærhornið utarlega úr vítateignum vinstra megin. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

HK-ingar náðu að jafna metin í 1:1 strax í upphafi síðari hálfleiks þegar Ahmad Faqa skoraði á 50. mínútu. Hann var þá aleinn í teignum eftir aukaspyrnu frá hægri kantinum og skoraði með skalla fram hjá Kristijan Jajalo í markinu. 

Eftir mark HK voru gestirnir meira með boltann en KA-menn voru þéttir til baka og beittu skyndisóknum. Ekki var mikið um opin færi í seinni hálfleik en bæði lið fengu þó tækifæri til að stela sigrinum. Heimamenn náðu að skapa hættur í nokkur skipti eftir hornspyrnur en gestirnir beittu einnig fyrirgjöfum í miklu magni sem náðu á köflum að skapa usla. 

Það fór þó svo að fleiri mörk voru ekki skoruð í dag og lokatölur því á Greifavelli 1:1. Eftir leikinn er KA liðið áfram í sjöunda sæti deildarinnar með 21 stig, en pakkinn fyrir ofan er þéttur og er aðeins eitt stig sem skilur á milli KA-manna og Stjörnumanna sem eru í fjórða sæti. Næsti leikur KA er gegn Dundalk í Írlandi í annari umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu. Þar eru KA-menn með 3:1 forystu eftir fyrri leikinn.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna úr leiknum.

Nánari umfjöllun og myndasyrpa í kvöld