Fara í efni
KA

Titilvörn KA/Þórs hefst í dag gegn ÍBV

Ógleymanlegt augnablik! Leikmenn KA/Þórs fagna sæti í úrslitarimmu Íslandsmótsins í vor eftir dramatískan sigur í framlengdum leik gegn ÍBV. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íslandsmeistarar KA/Þórs í handbolta hefja titilvörnina í dag, þegar lið ÍBV kemur í heimsókn í KA-heimilið.

Meisturunum er spáð þriðja sæti í deildinni í vetur af forráðamönnum og fyrirliðum liða deildarinnar, og ÍBV fimmta sæti, en spekingarnir spá því að Fram hafi betur í blóðugri baráttu við Val um deildarmeistaraititilinn. Auðvitað skiptir slíkur samkvæmisleikur engu máli en er oft býsna skemmtilegur.

KA/Þór og ÍBV mættust í undanúrslitum Íslandsmótsins í vor, í frábærum leikjum. KA/Þór vann fyrsta leikinn á Akureyri, ÍBV vann í Eyjum og eftir jafnan þriðja leik, sem var framlengdur, höfðu Stelpurnar okkur eins marks sigur; þegar hefðbundnum leiktíma var lokið og staðan jöfn átti ÍBV aukakast sem Ásta Björt Júlíudóttur tók en heimamenn sluppu með skrekkinn: skot Ástu fór yfir varnarvegginn en small í þverslá KA/Þórs marksins og þaðan í gólfið – utan marklínunnar.

Í lok framlengingar fékk ÍBV aftur aukakast á ákjósanlegum stað, lið KA/Þórs hafði eins marks forkot og liðsmenn þess stigu trylltan sigurdans eftir að varnarveggurinn varði skot⁸ Hrafnhildar Hönnu Þrastardóttur.

KA/Þór

Komnar: Unnur Ómarsdóttir (Fram), Sofie Söberg Larsen (H71). 

Farin: Ólöf Maren Bjarnadóttir (ÍBV).

ÍBV
Komnar: Mariju Jovanovic (ZORK Jagodina), Ingibjörg Olsen (VÍF Vestmanna), Lina Cardell (Sävehof, samdi aftur – var með ÍBV á síðustu leiktíð).

Farnar: Darija Zecevic (Stjarnan), Ásta Björt Júlíusdóttir (Haukar), Hólmfríður Arna Steinsdóttir (Selfoss), Rakel Hlynsdóttir (Selfoss), Ksenija Dzaferovic (ÍR).

  • Leikurinn í dag hefst klukkan 14.00.

Smellið hér til að lesa um hnífjafnan þriðja leik KA/Þórs og ÍBV í úrslitakeppninni í vor.

Smelllið hér til að  sjá myndasyrpu frá lokaandartökum þriðja undanúrslitaleiks KA/Þórs og ÍBV.