Fara í efni
KA

Tilboð í Brynjar frá Ítalíu og Rússlandi

Brynjar Ingi Bjarnason í leik KA gegn Víkingi á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA hafa borist að minnsta kosti tvö tilboð í knattspyrnumanninn Brynjar Ingi Bjarnason samkvæmt heimildum Akureyri.net. Annað er frá Rússlandi, hitt frá ítölsku liði. 

Brynjar Ingi hefur slegið rækilega í gegn í þremur fyrstu landsleikjunum, gegn Mexíkó og Færeyjum í síðustu viku og Póllandi í dag, þar sem hann kórónaði frammistöðuna með glæsilegu marki.

Brynjar Ingi er 21 árs, verður ekki 22 fyrr en í byrjun desember.

Brynjar á ekki að baki neina leiki með yngri landsliðunum þannig að hann klæddist landsliðstreyjunni fyrsta sinni þegar Ísland mætti Mexíkó í vináttuleik í Texas fyrir rúmri viku. Hann var þá í byrjunarliðinu, aftur gegn Færeyjum í Þórshöfn á föstudaginn og þriðja leikinn í röð í dag, þegar Ísland lék gegn Póllandi í Poznan. Brynjar Ingi lék mjög vel í öllum leikjunum og kórónaði ævintýranlega byrjun á landsliðsferlinum með glæsilegu marki í dag.

Akureyri.net veit að lið á Norðurlöndunum hafa spurst fyrir um Brynjar Inga en tilboð hafa ekki borist þaðan eftir því sem næst verður komist. Næsta víst er tilboðin verða fleiri en þau tvö sem nefnd voru í upphafi og hætt við því að verðmiðinn hafi hækkað í dag, þar sem Brynjar Ingi var hreint frábær gegn Pólverjum og gerði þar að auki mark sem hvaða framherji hefði verið stoltur af.