Fara í efni
KA

Tiffany McCarty verður með Þór/KA

Arna Sif Ásgrímsdóttir, sem farin er í Val, og Tiffany Janea McCarty, þegar Breiðablik heimsótti Þór/KA í fyrrasumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Bandarískur framherji, Tiffany Janea McCarty, hefur bæst við leikmannahóp knattspyrnuliðs Þórs/KA fyrir sumarið. Hún lék með Breiðabliki á síðasta ári og Selfossi 2020.

Tiffany er reyndur leikmaður, nýorðin 31 árs, fædd í desember 1990. Hún á að baki samtals 48 leiki með íslensku liðunum og hefur gert alls 22 mörk fyrir þau, þar af 17 í 33 leikjum í efstu deild. Hún varð bikarmeistari með Breiðabliki og skoraði tvö mörk í úrslitaleiknum á liðnu tímabili.

Fimm öflugir leikmenn hafa þar með gengið til liðs við Þór/KA upp á síðkastið. Þessar höfðu samið áður:

  • Sandra María Jessen kemur heim frá Bayer Leverkusen í Þýskalandi
  • Andrea Mist Pálsdóttir snýr heim frá Växjö í Svíþjóð
  • Hulda Ósk Jónsdóttir lýkur háskólanámi í Bandaríkjunum í vor og kemur þá aftur til Þórs/KA
  • Bandaríski varnarmaðurinn Brooke Lampe kemur úr háskóladeildinni þar í landi

Jafnvægi aldurs og reynslu í hópinn

Þjálfarar Þórs/KA eru ánægðir með Tiffany sé á leið til Akureyrar. „Þetta er annað skref í rétta átt fyrir félagið,“ segir Perry Mclachlan. „Við vildum bæta við fleiri mörkum hjá liðinu og Tiffany er leikmaður sem mun án efa skila því til liðsins. Á undanförnum vikum höfum við breyst úr mjög ungum leikmannahópi í það að vera með gott jafnvægi á milli ungra og reyndra leikmanna. Liðið og þjálfararnir hlakka til að vinna með Tiffany ásamt öðrum mikilvægum leikmönnum sem við höfum bætt í hópinn,“ segir Perry á heimasíðu Þórs/KA.

Jón Stefán Jónsson tekur í sama streng á sama stað: „Koma Tiffany er mikilvægt púsl í því markmiði að koma ákveðnu jafnvægi á aldurssamsetningu hópsins. Hún kemur ekki bara með gæði heldur gífurlega reynslu sem atvinnumaður og mun hjálpa okkur að efla og kenna okkar ungu stelpum. Ég bind miklar vonir við hana utan vallar, ekki síður en innan vallar og hlakka mikið til að vinna með henni,“ segir Jón Stefán.

Langur ferill vestanhafs

Áður en hún kom til Íslands hafði Tiffany að mestu spilað heima í Bandaríkjunum. Á háskólaárunum var hún liðsmaður Florida State Seminoles, þar sem hún spilaði 98 leiki og skoraði 63 mörk á árunum 2008-2012. Það mun enn vera markamet hjá liðinu. Eftir það lék hún með nokkrum liðum í bandarísku deildunum og eitt tímabili í Noregi.

Heimasíða Þórs/KA

Hér má sjá upplýsingar um Tiffany á vef KSÍ.