Fara í efni
KA

Þrjú stig og Sandra rauf 100 marka múrinn!

Sandra María Jessen - 101 mark í 161 leik í efstu deild Íslandsmótsins er frábært afrek! Mynd: Skapti Hallgrímsson

Landsliðskonan Sandra María Jessen var í aðalhlutverki í dag – einu sinni sem oftar – þegar Þór/KA sigraði Stjörnuna 4:1 í Bestu deildinni í knattspyrnu í Garðabæ.

Ekki nóg með að Sandra María gerði tvö mörk í leiknum heldur var fyrra markið það eitt hundraðasta sem hún gerir í efstu deild Íslandsmótsins fyrir Þór/KA – í 161. leiknum.

Stjarnan náði forystu í dag þegar Hrefna Jónsdóttir skoraði á 6. mín. eftir afar undarlega tilburði Shelby Money, markvarðar Þórs/KA. Gestirnir hresstust fljótlega, léku bærilega það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en tóku síðan öll völd í þeim seinni.

Sandra jafnaði á 30. mínútu. Agnes Birta Stefánsdóttir skaut að marki langt utan af velli og Sandra stýrði boltanum rétta leið úr miðjum vítateignum. Sögulegt mark þessa frábæra framherja, það 100. í efstu deild.

Annað mark Þórs/KA var einnig sögulegt. Emelía Ósk Krüger (fædd 2006) var í byrjunarliðinu þriðja leikinn í röð en meiddist í lok fyrri hálfleiks og Hildur Anna Birgisdóttir (fædd 2007) leysti hana af hólmi þegar seinni hálfleikur hófst.

Hildur Anna gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr hornspyrnu strax á annarri mínútu seinni hálfleiksins! Þetta var fyrsta mark hennar fyrir Þór/KA.

Margrét Árnadóttir gerði þriðja markið á 49. mín. af stuttu færi – eftir aðra hornspyrnu Hildar Önnu.

Það var svo Sandra María sem setti punktinn yfir i-ið með fjórða og síðasta markinu. Hún skoraði þá úr markteignum eftir fyrirgjöf Amalíu Árnadóttur og hefur þar með gert 101 mark í efstu deild Íslandsmótsins í 161 leik, sem er frábær árangur.

Sandra María Jessen er lang markahæst í Bestu deildinni, hefur nú gert 12 mörk í átta leikjum. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir Breiðabliki er næst með sjö mörk.

Þór/KA er í þriðja sæti Bestu deildarinnar með 18 stig að loknum átta leikjum. Breiðablik efst með 21 stig og Valur 18, bæði eftir sjö leiki.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.