Fara í efni
KA

Þrjú mikilvæg stig í safn KA – MYNDIR

Hart var barist í rigningunni á Greifavelli KA í dag. Jajalo markvörður KA gómar hér boltann áður en Róbert Frosti Þorkelsson nær til síns; Hrannar Már Steingrímsson dró líka úr hættunni á því. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA-menn unnu Stjörnuna 2:1 á heimavelli í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, og eygja því enn von um að verða á meðal sex efstu liða að loknum 22 umferðum.

Sigur var lífsnauðsynlegur í dag til að ná því markmiði og KA nældi í þrjú stig eftir dramatík og mikla baráttu í 15 stiga hita og mikilli rigningu. KA menn hafa verið undir miklu álagi undanfarið; spiluðu tvo leiki á viku í tæplega tvo mánuði þar til nú að þeir fengu fimm daga til að hlaða batteríin fyrir leikinn í dag.

Eftir sigurinn er KA með 25 stig og er í sjöunda sæti þegar tveir leikir eftir. KR hefur 28 stig í sjötta sæti og FH, sem sigraði Val 3:2 í Hafnarfirði í kvöld, er komið með 31 stig og er í fimmta sæti.

_ _ _

ELFAR ÁRNI SKORAR
Elfar Árni Aðalsteinsson kom KA í 1:0 á 15. mínútu eftir hraða sókn. Bakvörðurinn Ingimar Stöle sendi inn fyrir vörnina á framherjann og hann vippaði laglega yfir Árna Snæ Ólafsson markvörð sem kom út á móti. Elfar Árni fagnaði síðan með því, eins og stundum áður, að rifja upp gamla takta úr leikfimitímum á Húsavík á árum áður! Á efri myndinni glittir í markaskorarann fyrir ofan vinstri öxlina á Hrannari Birni Steingrímssyni, númer 22.

_ _ _

EMIL JAFNAR FYRIR STJÖRNUNA
Markahæsti maður Bestu deildarinnar, Emil Atlason, jafnaði metin fyrir gestina rétt áður en fyrri hálfleik lauk. Róbert Frosti Þorkelsson fór illa með Ingimar Stöla á kantinum, lék inn í teig og upp að endamörkum og sendi boltann út í teig þar sem Emil var undarlega frír. Hann þakkaði pent fyrir sig með því að skora í 13. sinn í deildinni í sumar. Emil er markahæstur í deildinni.

_ _ _

GOTT FÆRI – AFLEITT SKOT!
Eggert Aron Guðmundsson, sem verið hefur frábær með Stjörnunni undanfarið, fékk prýðilegt færi til að skora strax í upphafi seinni hálfleiks. Jajalo markvörður kom út á móti og truflaði Garðbæinginn þannig að skot hans var ótrúlega slakt; boltinn fór út fyrir hliðarlínu þannig að KA fékk innkast!

_ _ _

HARLEY ÞRUMAR Í ÞVERSLÁ
Harley Willard átti mjög gott skot rétt utan vítateigs á 68. mín. Boltinn small í þverslánni og upp í loftið, Elfar Árni Aðalsteinsson og Árni Snær markvörður Stjörnunnar börðust um boltann og KA-maðurinn var dæmdur brotlegur. Þetta var síðasta framlag bæði Elfars Árna og Willards í leiknum; áður en aukasprnan var tekin fóru þeir af velli í stað Ásgeirs Sigurgeirssonar og Jakobs Snæs Árnasonar.

_ _ _

VÍTI OG RAUTT SPJALD
Sveinn Margeir Hauksson var dæmdur brotlegur á 77. mínútu í þann mund er Emil Atlason var að ná til boltans fyrir opnu marki KA. Skv. þessum myndum virðist Sveinn Margeir vera á undan Emil í boltann en Þorvaldur dómari Árnason úrskurðaði hann brotlegan og sýndi KA-manninum gult spjald. Hann hafði áður fengið gult spjald í leiknum fyrir brot og var því vikið af velli. 

_ _ _

TAUGARNAR ÞANDAR
Áður en vítaspyrnan var tekin voru taugar margra án efa þandar, bæði stuðningsmanna KA og Stjörnunnar. Boltastrákarnir tveir fyrir aftan mark KA-mannsins Jajalo fóru ekki varhluta af spennunni!

_ _ _

GÆFAN YFIRGAF EMIL
Emil Atlason hefur verið sjóðandi heitur fyrir framan markið upp á síðkastið og er markahæstur í deildinni. Hann skoraði í fyrri hálfleik í dag en gæfan yfirgaf Emil um stund þegar hann tók vítið. Fast skot hans fór í þverslána og aftur fyrir markið.

_ _ _

DUSAN BJARGAR Á LÍNU
Þegar um það bil fjórar mínútur voru eftir að venjulegum leiktíma fengu Stjörnumenn aukaspyrnu úti á velli, boltinn var sendur inn á teig og Jajalo markvörður virtist grípa hann ef boltinn rann úr höndum hans.  Kjartan Már Kjartansson var fyrstur að átta sig, snéri sér snöggt við og skaut að marki en Dusan Brkovic kom í veg fyrir mark á ögurstundu með því að kasta sér fyrir boltann á línunni.

_ _ _

SIGURMARK Í LOKIN
Vallarklukkan sýndi að síðasta mínúta hefðbundins leiktíma var hafin þegar Ásgeir Sigurgeirsson tryggði KA-mönnum öll þrjú stigin. Ívar Örn Árnason sendi boltann inn fyrir vörn Stjörnunnar, Ásgeir byrjaði á því að hrista af sér Guðmund Kristjánsson, lék inn á teig þar sem Daníel Laxdal tók á móti honum en Ásgeir lagði boltann fyrir sig af yfirvegum ysta í teignum vinstra megin og skoraði með fallegu skoti neðst í fjærhornið. Gríðarlega mikilvægur sigur var í augsýn og ekki að undra að markaskorarinn og aðrir KA-menn ærðust af fögnuði.

_ _ _

KA-menn mæta næsta FH-ingum í Hafnarfirði á miðvikudaginn og lokaumferðin fer fram um næstu helgi, sunnudaginn 3. september. KA sækir þá Fylki heim í Árbæinn.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna á vef KSÍ