Fara í efni
KA

Þrjár þreyttu frumraun í efstu deild í gær

Þær léku fyrstu mínúturnar í efstu deild í gær. Frá vinstri: Kolfinna Ósk Elínardóttir, Emelía Ósk Kruger og Ísey Ragnarsdóttir. Mynd af vef Þórs/KA.

Þó frammistaða Stelpnanna okkar í Þór/KA í tapi gegn Keflvíkingum í 2. umferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu í gær hafi valdið vonbrigðum verður ekki annað sagt en að félagið standi vel hvað varðar unga og upprennandi leikmenn. Í fyrstu tveimur leikjum liðsins í deildinni hafa fimm stelpur sem fæddar eru á árunum 2006-2008 spilað sínar fyrstu mínútur í efstu deild. Þær voru allar lykilleikmenn í liði 3. flokks Þórs/KA sem vann bæði Íslands- og bikarmeistaratitil í fyrrahaust.

Á vellinum í gær. Frá vinstri: Kolfinna Eik Elínardóttir, Emelía Ósk Kruger og Ísey Ragnarsdóttir. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Í leiknum í gær komu hvorki meira né minna en þrjár á inn í seinni hálfleiknum og spiluðu sínar fyrstu mínútur í efstu deild. Emelía Ósk Kruger (2006) spilaði allan seinni hálfleikinn, en Kolfinna Eik Elínardóttir (2007) og Ísey Ragnarsdóttir (2008) komu báðar inn þegar leið á seinni hálfleikinn. Ísey og Kolfinna Ósk voru báðar með 3. flokki Þórs/KA syðra um helgina þar sem liðið tryggði sér sigur í fyrstu lotu Íslandsmótsins, A-riðli, eins og lesa má um í frétt á thorka.is. Kolfinna spilaði annan af tveimur leikjum liðsins, en Ísey spilaði tvo leiki og skoraði mark í báðum.
_ _ _

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

  • Amalía Árnadóttir (2006) var í byrjunarliðinu hjá Þór/KA í gær, en hún spilaði sínar fyrstu mínútur í efstu deild í sigurleiknum gegn Stjörnunni í liðinni viku þegar hún kom inn eftir að Steingerður Snorradóttir meiddist á 8. mínútu. Í sama leik spilaði Karlotta Björk Andradóttir (2007) einnig sínar fyrstu mínútur í efstu deild, en hún gat ekki verið með í leiknum í gær. Á myndinni þrumar Amalía að marki Keflavíkurliðsins í gær.
    _ _ _ 

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

  • Þess má og geta að Krista Dís Kristinsdóttir (2006), sem spilaði fáeinar mínútur í einum leik í efstu deild síðasta sumar, lék rúmar fimm síðustu mínúturnar í Garðabæ um síðustu helgi en var í byrjunarliðinu í gær. Karen María Sigurgeirsdóttir meiddist í upphitun í gær og Krista kom því inn í byrjunarliðið með stuttum fyrirvara. Á myndinni að ofan býr Krista Dís sig undir að skjóta að marki Keflvíkinga í gær, Vera Varis markvörður gestanna varði þá frábærlega.