Fara í efni
KA

Þrír KA-menn voru í agabanni gegn ÍBV

Þorri Mar Þórisson - Harley Willard - Pætur Petersen. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þrír leikmenn KA voru ekki með liðinu gegn ÍBV í Vestmannaeyjum á miðvikudag vegna agabanns. Vísir greinir frá og vitnar í Lárus Orra Sigurðsson, sem greindi fyrst frá þessu í Stúkunni á Stöð 2 Sport í gærkvöldi.

Harley Willard, Pætur Petersen og Þorri Mar Þórisson ákváðu allir, án leyfis, að dvelja degi lengur í Reykjavík eftir leik gegn KR um síðustu helgi. Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, staðfesti þetta við Vísi en segir enga dramatík í málinu og að þremenningarnir yrðu til taks í næsta leik, undanúrslitaleik Mjólkurbikarsins gegn Breiðabliki næsta þriðjudag.

„Við ferðumst saman í leiki og saman heim. Það var frí frá æfingum daginn eftir leikinn við KR og þessir þrír ákváðu að verða eftir í Reykjavík, en báðu ekki um leyfi til þess. Þess vegna ákváðum við að þeir yrðu ekki í hóp í þessum eina leik [við ÍBV á miðvikudag],“ segir Hallgrímur.