Fara í efni
KA

Þórsarar fallnir og Þór/KA tapaði

Slæmur dagur! Þórður Tandri Ágústsson í baráttunni gegn Gróttu á Seltjarnarnesi - Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir og Hulda Björg Hannesdóttir í leiknum gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Slæmur íþróttadagur er senn að kveldi kominn; handboltalið Þórs er fallið úr efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Olísdeildinni, eftir 27:21 tap fyrir Gróttu á Seltjarnarnesi og Þór/KA tapaði fyrir Íslandsmeisturum Breiðabliks í fótbolta í Pepsi Max deild kvenna á Kópavogsvelli, 3:1.

Leikurinn á Seltjarnarnesi var vægast sagt sveiflukenndur. Þórsarar byrjuðu afleitlega og gerðu ekki nema tvö mörk á fyrstu 18 mínútunum, staðan þá 7:2. Eftir að Halldór Örn þjálfari tók leikhlé hrukku hans mann hins vegar í gang og jafnt var í hálfleik, 10:10. Þórsarar komust svo tveimur mörkum yfir og eygðu möguleika á sigri - og þar með möguleika á að halda sér í deildinni - en þá hrökk allt í baklás hjá þeim og Seltirningar stungu af þegar þeir gerðu sjö mörk í röð. Þórsarar skoruðu þá ekki í átta mínútur og ekki var nægur tími til stefnu þegar þeir komust loks á blað á ný.

Sigur Íslandsmeistara Breiðabliks á Þór/KA var sanngjarnt. Bæði lið byrjuðu reyndar af nokkrum krafti en heimamenn tóku fljótlega völdin og voru betri. Blikarnir nýttu breidd vallarins vel og gestirnir áttu í miklum erfiðleikum með að verjast sóknarlotum upp kantana.

Blikarnir voru 1:0 yfir í hálfleik, komust í 2:0 á 51. mínútu en Sandra Nabwteme minnkaði muninn með fyrsta marki sínu fyrir Þór/KA; María Catharina fór upp hægri kantinn og sendi á Söndru sem var við vítateigsbogann, þrumaði að marki, boltinn fór í varnarmann og breytti um stefnu þannig að markvörðurinn átti ekki möguleika á að verja. Boltann fór í stöngina og inn. Þarna kviknaði líklega smá von hjá Akureyringunum en þriðja mark Blika kom skömmu síðar og þar með voru úrslitin ráðin.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna úr Breiðablik - Þór/KA.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna úr Grótta - Þór.