Fara í efni
KA

Þór/KA tekur á móti Íslandsmeisturunum

Byrjunarlið Þórs/KA í síðasta leik, gegn Val á heimavelli. Á innfelldu myndinni er Shaina Ashouri sem gengin er til liðs við Þór/KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íslandsmeistarar Breiðabliks sækja Þór/KA heim í Pepsi Max deild Íslandsmótsins í knattspyrnu í dag. Liðin mætast á Þórsvellinum (Salt Pay vellinum) og flautað verður til leiks klukkan 18.30.

Lið Breiðabliks er í harðri baráttu við Val á toppi deildarinnar. Bæði lið hafa lokið 12 leikjum og hefur Valur 29 stig en Breiðablik 27. Lið Þórs/KA á einnig 12 leiki að baki og er með 13 stig í sjöunda sæti.

Þór/KA hefur borist liðsauki, Shaina Ashouri sem er orðin lögleg með liðinu og kemur væntanlega við sögu í kvöld. Shaina er bandarísk og leikur sem framherji eða miðjumaður. Hulda Ósk Jónsdóttir er hins vegar horfin á braut; síðasti leikur hennar var gegn Val en Hulda er á leið til náms og knattspyrnuleiks í Bandaríkjunum, í Notre Dame háskólanum í Indiana. Þá er María Catharina Ólafsdóttir Gros farin til Celtic í Skotlandi.