Fara í efni
KA

Þór/KA tekur á móti Fylki í Bestu deildinni

Tvær bráðefnilegar! Emelía Ósk Krüger, til hægri, hefur verið í byrjunarliði Þórs/KA í síðustu tveimur leikjum og staðið sig mjög vel. Hún meiddist undir lok fyrri hálfleiks í síðasta leik, gegn Stjörnunni, Hildur Anna Birgisdóttir, til vinstri, leysti Emelíu af hólmi. Hún kom heldur betur við sögu; lagði upp eitt mark og skoraði annað, beint úr horni! Myndir: Skapti Hallgrímsson og Þórir Tryggvason

Þór/KA tekur á móti Fylki kl. 18.00 í dag á Þórsvellinum (VÍS-vellinum) í níundu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu.

Fjórir aðrir leikir eru á dagskrá í kvöld, m.a. viðureign Vals og FH. Blikar töpuðu í gær fyrir nýliðum Víkings og með sigri í kvöld fara Valsarar  upp að hlið Kópavogsliðsins. Stelpurnar okkar í Þór/KA eru í humátt á eftir, í þriðja sæti, þremur stigum á eftir Val og sex stigum á eftir Breiðabliki.

Fylkir er í níunda sæti með fimm stig. Á vef Þórs/KA segir að taflan segi þó ekki söguna því Fylkisliðið hafi átt ágæta leiki. Í stuttu spjalli sem Þór/KA birti á Instagram í gær sagði  þjálfari liðsins, Jóhann Kristinn Gunnarsson, að búast mætti við erfiðum hörkuleik gegn Fylki. Liðið sé vel skipulagt og hættulegt og hafi verið inni í öllum leikjum sem þær hafa spilað. Meðal annars hafi liðin í efstu sætunum átt í brasi með Fylkisliðið.

Á vef Þórs/KA er fjölbreytt og skemmtileg samantakt um félögin tvö sem mætast í kvöld:

  • Félögin hafa mæst 28 sinnum í efstu deild og hefur Þór/KA unnið helming þeirra leikja, fjórðungur hefur endað með jafntefli og fjórðungur með sigri Fylkis. Síðast mættust þessi lið í efstu deild sumarið 2021. Þá varð markalaust jafntefli á Akureyri, en Þór/KA vann útileikinn 2-1. Að þeim leik loknum var ljóst að Fylkir félli í Lengjudeildina þar sem liðið spilaði í tvö ár, en er nú aftur í efstu deild.
  • Þór/KA og Fylkir mættust tvisvar á ári í efstu deild frá og með árinu 2006 til og með 2021, ef undanskilin eru árin 2013 og 2018. Áhugaverð tilviljun reyndar að bæði árin sem Þór/KA hefur orðið Íslandsmeistari féll Fylkisliðið sama ár. Þegar leitað er leikmanna sem spilað hafa fyrir bæði félögin kemur í ljós að engin knattspyrnukona hefur skipt beint úr Þór/KA í Fylki eða öfugt.
  • Meðal leikmanna sem spilað hafa fyrir bæði félögin eru Danka Podovac, Freydís Anna Jónsdóttir, Telma Ýr Unnsteinsdóttir og Laufey Björnsdóttir, sem spilaði 12 leiki fyrir Þór/KA/KS í Landsbankadeildinni 2004. Tvíburasystir Laufeyjar, Björk, spilaði einnig fyrir Fylki, en hún náði ekki að spila meistaraflokksleik með Þór/KA/KS. Eflaust hafa fleiri komið við sögu beggja liða enda ekki farið djúpt í leikmannalista liðinna ára til að finna þessar sem hér hafa verið nefndar. Þær Danka, Freydís Anna og Telma Ýr eru þær einu sem höfðu félagaskipti beint á milli þessara félaga.

Upphitun fyrir stuðningsmenn verður með hefðbundnum hætti, segir á vef Þórs/KA: „Grillið funheitt, borgararnir glóðvolgir, drykkirnir ískaldir og stelpurnar sjálfar sjóðheitar inni á vellinum eins og áður.“

Þremur stundarfjórðungum fyrir leik, kl. 17.15, mætir Jóhann Kristinn þjálfari til fundar við stuðningsmenn og fer yfir áherslur liðsins í leiknum.

Staðan í deildinni