Fara í efni
KA

Þór/KA semur við tvo erlenda leikmenn

Þór/KA hefur samið við tvo erlenda leikmenn sem munu leika með liðinu í Bestu deildinni í knattspyrnu á komandi sumri. Þetta kemur fram á vef liðsins í morgun.

Með ráðningu þessara leikmanna er markmið félagsins að styrkja og stækka hópinn, auka breiddina og ekki síst að fá inn reynda leikmenn til að æfa og spila við hlið hinna ungu leikmanna sem koma fram á sjónarsviðið í meistaraflokki úr yngri flokkum félagsins á hverju ári, segir á vef Þór/KA.

  • Lidija Kuliš (1992) er landsliðskona Bosníu-Herzegóvínu og kemur til félagsins frá Split í Króatíu. Áður hafði hún verið hjá Turbine Potsdam um árabil, en eftir það einnig hjá Glasgow City, AC Milan, Ferencváros og nú síðast Split.

Á vef Þórs/KA segir: Lidija segir ákvörðun sína um að koma til Íslands tengjast bæði fótboltanum og landinu. Ég elska veturinn og náttúruna,“ sagði Lidija spurð um ástæður þess að hún ákvað að koma til Íslands til að spila fótbolta. „Það er ein af ástæðum þess að ég ákvað að koma til Íslands. Auðvitað er svo líka það að upplifa það að spila í íslensku deildinni og að hjálpa liðinu að ná frábærum úrslitum. Ég hef fengið tækifæri til að spila með íslenskum leikmönnum með fyrri félögum sem ég hef verið hjá svo ég hef heyrt margt gott um íslenskan fótbolta og Ísland sem land og hlakka virkilega til að hitta nýju liðsfélagana og starfsfólkið og komast af stað á æfingum.“

  • Lara Ivanuša (1997) er slóvensk landsliðskona og kemur til félagsins frá Split í Króatíu. Áður hafði hún meðal annars verið hjá Glasgow City og Ferencváros.

Lara hlakkar líka til að koma til Íslands. Ég hef séð að Ísland er fallegt land og margt að sjá. Ég hef líka heyrt margt jákvæt og gott um lífið og fótboltann frá fyrrum liðsfélaga sem spilaði á Íslandi,“ segir Lara. „Ég hlakka til að hitta liðið og mynda sambönd innan og utan vallar og hjálpa liðinu að ná markmiðum á leiktíðinni.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, vill láta verkin tala og leyfa leikmönnum að sanna sig á vellinum. Við erum mjög ánægð með að fá þær til okkar fyrir spennandi tímabil 2024. Lara og Lidija færa okkur mikla reynslu úr atvinnumennskunni og eru áræðnar, ákveðnar og geta leyst margar stöður á vellinum. Við bindum að sjálfsögðu miklar vonir við að þær styrki okkar flotta lið enn frekar og vitum að þær eiga eftir að falla vel inn í hópinn. Við látum það vera að mæra þær mikið á þessum tímapunkti og leyfum þeim bara að sanna sig á vellinum.