KA
Þór/KA leikur í kvöld við FH í bikarkeppninni
01.06.2021 kl. 13:52
Jakobína Hjörvarsdóttir, hinn stórefnilegi vinstri bakvörður Þórs/KA, í leiknum gegn FH á Íslandsmótinu á Þórsvelli í fyrra. Hún verður án efa í eldlínunni í Kaplakrika í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Stelpurnar í Þór/KA hefja þátttöku í bikarkeppninni í knattspyrnu, Mjólkurbikarkeppninni, í kvöld þegar þær sækja FH heim í Kaplakrika. Leikurinn, sem er í 16 liða úrslitum, hefst klukkan 18.00.
FH, sem féll úr efstu deild Íslandsmótsins, Pepsi Max deildinni, síðasta haust burstaði ÍR, sem er í 2. deild, 10:1 í 2. umferð keppninnar, og vann svo Víking úr Reykjavík 1:0 í 3. umferð. Víkingar eru einnig í næst efstu deild, Lengjudeildinni.
FH vann fyrri leikinn við Þór/KA á Íslandsmótinu í fyrrasumar á Þórsvellinum, 1:0, en Stelpurnar okkar náðu að hefna í Kaplakrika þegar þær unnu 2:1. Vonandi endurtaka þær leikinn í kvöld og komast í átta liða úrslitin.