Fara í efni
KA

Þór/KA getur komist upp í þriðja sæti á ný

Amalía Árnadóttir, til hægri, og Eyjastúlkan Thelma Sól Óðinsdóttir í fyrri leik liðanna í Eyjum í sumar. Ljósmynd: Sigfús Gunnar Guðmundsson

Þór/KA tekur á móti ÍBV í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu. Leikurinn, sem er í 12. umferð deildarinnar hefst á Þórsvellinum dag kl. 14.

Lið Þróttar skaust í þriðja sæti, upp fyrir Þór/KA, með sigri á Stjörnunni í gær en vinni Stelpurnar okkar í dag fara þær aftur upp í þriðja sæti og verða þá fjórum stigum á eftir toppliði Breiðabliks.

Lið ÍBV og Þórs/KA mættust í Vestmannaeyjum í þriðju umferð deildarinnar í sumar og hafði Þór/KA betur; vann 1:0 með marki Söndru Maríu Jessen um miðjan fyrri hálfleik. Sandra fékk að finna fyrir því í leiknum; Holly Taylor Oneill, leikmaður ÍBV, var þá rekin af velli seint í fyrri hálfleik fyrir að gefa henni fast olnbogaskot.