Fara í efni
KA

Þór/KA fær Stjörnuna í heimsókn í Bogann

Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir lætur vaða að marki Breiðabliks í Kópavogi um síðustu helgi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór/KA fær Stjörnuna í heimsókn í dag í Pepsi Max deildinni í fótbolta, efstu deild Íslandsmótsins. Leikurinn verður í Boganum og hefst klukkan 18.00. Vert er að geta þess að Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, er mætt í slaginn á nýjan leik. Hún lék með Glasgow City í Skotlandi í vetur og stóð sig afar vel, kom heim í síðustu viku, er laus úr sóttkví og verður í eldlínunni í kvöld.

Lið Þórs/KA hóf deildina með glæsilegum sigri á ÍBV í Eyjum, 2:1, en tapaði fyrsta heimaleiknum, 2:0, þegar lið Selfoss kom í heimsókn og tapaði loks fyrir Íslandsmeisturum Breiðabliks, 3:1, á Kópavogsvelli um síðustu helgi. Lið Þórs/KA er því með þrjú stig eftir þrjá leiki og er sem stendur í sjöunda sæti deildarinnar.

Stjarnan er í níunda sæti með eitt stig eftir þrjá leiki; liðið tapaði fyri Val, 2:1, í fyrstu umferðinni, gerði síðan markalaust jafntefli við Keflavík og tapaði fyrir Selfossi, 3:1, í síðustu umferð.