Fara í efni
KA

Þór/KA fær meistarana í heimsókn – frítt á völlinn

Margrét Árnadóttir var síðasti leikmaður Þórs/KA til að skora gegn Val og fagnar hér því marki, sem tryggði 2:1 sigur í fyrri leik liðanna í fyrrasumar. Liðin mættust þá í Boganum. Margrét er farin að leika með Þór/KA á ný eftir dvöl á Ítalíu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA mætir Íslandsmeisturum Vals í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu, á VÍS-vellinum (Þórsvelli) í dag kl. 19.15. 

Leikurinn er hluti 16. umferðar og er síðasta heimaleikur Stelpnanna okkar í hinni hefðbundnu 18 leikja deildarkeppni. Valur er á toppnum ásamt Breiðabliki með 33 stig en Þór/KA er í fimmta sæti með 22.

Eins og Akureyri.net hefur áður greint frá er spilað eftir nýju fyrirkomulagi í sumar: Að 18 umferðum loknum verður deildinni skipt í tvennt; sex efstu liðin mætast, halda stigunum, og eftir fimm viðbótarleiki hvers liðs fæst úr því skorið hver verður Íslandsmeistari. Þetta var fyrst reynt í efstu deild karla í fyrra og fyrirkomulagið er nú tekið upp í Bestu deild kvenna og Lengjudeild karla, næstu efstu deild Íslandsmótsins.

Sæti í efri hlutanum er ekki í höfn hjá Þór/KA því níu stig eru eftir í pottinum og liðið í sjöunda sæti er nú sjö stigum á eftir Þór/KA.

  • Vert er að geta þess að ókeypis er á völlinn í kvöld í boði VÍS.