Fara í efni
KA

Þór/KA á Króknum – 201. leikur Söndru Maríu

Sandra María Jessen í heimaleiknum gegn Selfossi í sumar. Hún spilaði 200. leikinn fyrir Þór/KA þegar liðið sigraði Selfoss á útivelli um síðustu helgi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sandra María Jessen spilaði 200. leikinn fyrir Þór/KA um síðustu helgi þegar liðið sigraði Selfoss 2:1 á útivelli í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Sandra María og liðsfélagar hennar mæta Tindastóli á Sauðárkróki í dag þegar síðasta umferð hefðbundinnar deildarkeppni fer fram.

Allir leikir dagsins hefjast kl. 14.00. Eftir umferðina halda sex efstu liðin áfram baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn og sæti í Evrópukeppni.

Þór/KA er í sjötta sæti deildarinnar með 25 stig og verður í efri hlutanum en Tindastóll í áttunda sæti með 18 stig. Stelpurnar okkar í Þór/KA gætu náð þriðja sæti og því spilað þrjá leiki af fimm á heimavelli í lokahluta deildarinnar. Liðin í fjórða, fimmta og sjötta sæti spila tvo leiki á heimavelli.

Leikir dagsins eru þessir:

  • Þróttur - Breiðablik
  • Tindastóll - Þór/KA
  • Stjarnan - Selfoss
  • ÍBV - FH
  • Valur - Keflavík

Með sigri á Tindastóli kæmist Þór/KA í 28 stig en það dugar því miður mjög ólíklega til að komast ofar en í fjórða sæti. Stjarnan fær botnlið Selfoss í heimsókn og fer með sigri í 29 stig. Ekki dugar þó að velta því fyrir sér; lið Þórs/KA einblínir eingöngu að vinna á Króknum og sjá svo til. Það hefur margoft sýnt sig að allt getur gerst í íþróttum!

Til að Þór/KA nái þriðja sæti ...

  • ... þarf Þór/KA að vinna Tindastól á Sauðárkróki
  • ... má Stjarnan í mesta lagi gera jafntefli við Selfoss í Garðabænum
  • ... má Þróttur ekki vinna Breiðablik á heimavelli
  • ... má FH ekki vinna ÍBV í Eyjum

Nánar hér á heimasíðu Þórs um 200 leiki Söndru Maríu