Fara í efni
KA

Þór Íslandsmeistari utanhúss sumarið 1941

Íslandsmeistar utanhúss 1941. Aftari röð f.v. Þorbjörg Hjálmarsdóttir, Ingibjörg Magnúsdóttir, Stefanía Kristinsdóttir, Hulda Pétursdóttir, Lilja Sveinfríður Sigurðardóttir og Kári Sigurjónsson þjálfari og fararstjóri. Kári var formaður Þórs 1937-1940. Fremri röð f.v. Gerða Halldórsdóttir, Guðlaug Sigfúsdóttir, Auður Aðalsteinsdóttir, Bára Þorsteinsdóttir og Elín Brynjólfsdóttir. Að auki voru Emma Sigurðardóttir og Bára Gestsdóttir í hópnum.

Stelpurnar í KA/Þór urðu Íslandsmeistarar í handbolta um síðustu helgi eins og hvert mannsbarn veit líklega. Það er fyrsti titill liðsins, en þó ekki fyrsti Íslandsmeistaratitill akureyrskra kvenna í íþróttinni. Þórsarar urðu nefnilega Íslandsmeistarar utanhúss sumarið 1941. Vert er að rifja það upp í tilefni glæsilegs árangurs Stelpnanna okkar í vetur.

Ármann varð Íslandsmeistari kvenna innanhúss fimm ár í röð á þessum tíma, frá 1940 til 1944, en ekki hvarflað að konum norður í landi að mæta til hins hefðbundna Íslandsmóts að vetri til. Fjögur þessara ára voru þátttökulið reyndar aðeins tvö, Ármann og Haukar í þrígang og eitt árið bara tvö lið frá Ármanni, a og b lið félagsins.

Bjuggu í íþróttahúsi Jóns

Á útimótinu sumarið 1941 voru þrjú lið og sigruðu Þórsarar bæði Vestmannaeyinga og Ármenninga. 

Mótið fór fram í Reykjavík. Jón Kristinsson segir svo frá í dagbók formanns: „Föstudaginn 4. júlí fór handknattleiksflokkur frá Þór áleiðis til Reykjavíkur, til að taka þátt í handknattleiksmóti Íslands. Farið var í 18-manna bíl frá B.S.A. bílstjóri Guðm Benediktsson.“

Jón segir frá því að félagið kostaði ferðir og mat á leiðinni að hálfu en Glímufélagið Ármann sá um flokkinn í Reykjavík. Höfðu Þórsstúlkurnar aðsetur í íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu en borðuðu í Oddfellow-höllinni. „Aðeins þrír flokkar tóku þátt í mótinu; frá Ármanni, Vestmennaeyingum og Þór.“

Fyrsti leikurinn var sunnudaginn 6. júlí milli Vestmannaeyjinga og Þórs. Jón skrifar að eftir 2 mínútur og 40 sekúndur hafi Hulda [Pétursdóttir] skorað fyrir Þór og þar með fyrsta mark mótsins. Eyjamenn náðu að jafna en Ingibjörg [Magnúsdóttir] bætti við marki fyrir Þór. Þannig stóðu leikur í hálfleik og urðu það jafnframt úrslitin. „Þór skoraði Þór 2 mörk í síðari hálfeik, sem bæði voru dæmd ógild. Dómari var Baldur Kristjánsson og dæmdi hann alla leikina,“ skrifar Jón.

Í öðrum leik mótsins, að kvöldi mánudags 7. júlí mættust lið Ármanns og Vestmannaeyinga og unnu Eyjastúlkur 2:1. „Ármann fékk 3 vítaköst en mistókst í öll skiftin,“ segir Jón.

Þór vann besta liðið

Síðasti leikurinn fór svo fram þriðjudagskvöldið 8. júlí þegar Þór og Ármann léku. „Strax á fyrstu mín. setur Ármann mark en Þórs-stúlkur byrjuðu þegar og skoruðu mark (Hulda) en það var dæmt ógilt. Eftir 5.30 mín fær Þór aukakast og skorar Þorbjörg mark úr því. Skömmu síðar setur Ármann annað mark og lauk fyrri hálfleik þannig, Árm 2:1. Er 3 mín voru af síðari hálfleik gerir Hulda mark, jafntefli, gerist nú leikurinn harður og hraður og aftur spennandi og sýndu bæði lið betri leik en þau höfðu áður sýnt. Seint í hálfleiknum gerir Árm. mark, sem er dæmt ógilt og á síðustu sek. setur Þór 3. markið (Ingibjörg) og vann leikinn 3:2. Þór hefur því unnið mótið með 4 stigum sett 5:3 mörkum (auk þess setti Þór mörk sem voru dæmd ógild) og hlotið nafnbótina Íslandsmeistari í handknattleik kvenna 1941.“

Í hópnum sem keppti á Íslandsmótinu voru 12 stúlkur auk fararstjóra. Jón formaður telur upp nöfnin í dagbókinni: „Auður Aðalsteinsdóttir, Elín Brynjólfsdóttir, Gerða Halldórsdóttir, Lilja Sigurðardóttir, Þorbjörg Hjálmarsdóttir, Hulda Pétursdóttir, Ingibjörg Magnúsdóttir, þessar stúlkur léku báða handknattleikina í Reykjavík. Varamenn Guðlaug Sigfúsdóttir, Stefanía Kristinsdóttir, Bára Þorsteinsdóttir, Emma Sigurðardóttir og Bára Gestsd. Fararstjóri flokksins Kári Sigurjónsson prentari. Auk þess voru í bílnum kona fararstjórans Lára Halldórsdóttir, form. fél. Jón Kristinsson og frú, er urðu eftir á Akranesi og sátu þar Stórstúkuþing Íslands en sameinuðust síðan flokknum aftur í R.vík. og Guðbjörg Sigurðardóttir, utanfélags.“

Keppt á Akureyri sumarið eftir

Íslandsmót kvenna í handknattleik utanhúss árið 1942 var haldið á Akureyri. Formaður Þórs, Jón Krisinsson, skrifaði þá í dagbókina: „Íþróttafélagið Þór sá um mótið. Leikið var á norðaustur hluta knattspyrnuvallar K.A. Keppandi félög voru Glímufélagið Ármann, Reykjavík, Knattspyrnufélag Akureyrar, Akureyri, Knattspyrnufél. Völsungur, Húsavík, Íþróttafélagið Þróttur, Norðfirði, Íþróttafélagið Þór, Akureyri. Ármann varð Íslandsmeistari í útihandknattleik kvenna 1942 með 7 stig, Þór fékk 5 stig, KA 4, og Völsungur og Þróttur 2 hvort.“