Fara í efni
KA

Tekst KA-mönnum að sigra Valsara aftur?

Ólafur Gústafsson tekinn föstum tökum í síðasta leik KA og Vals í KA-heimilinu, í febrúar á síðasta ári. Valur vann með fjögurra mark mun en Ólafur fór á kostum og gerði níu mörk. Ljósmynd: Sara Skaptadóttir

KA-menn fá Valsara í heimsókn í kvöld í næst síðustu umferð efstu deildar Íslandsmóts karla í handbolta, Olís deildarinnar. Flautað verður til leiks kl. 19.30.

Stigin tvö sem eru í boði eru báðum liðum afar mikilvæg; KA-menn eru í baráttu við Gróttu um sæti í úrslitakeppninni og Valsmenn berjast við FH um efsta sætið og þar með deildarmeistaratitilinn.

KA-menn gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Valsmenn 33:29 í fyrri leik liðanna, í Valsheimilinu í nóvember og sigur aftur í kvöld yrði mjög dýrmætur. KA er þremur stigum á undan Gróttu, sem mætir FH í kvöld. Sigri Grótta ekki í þeirri viðureign eru KA-menn öruggir um sæti í átta liða úrslitunum sama hver úrslitin verða í KA-heimilinu.

Síðasta umferð deildarkeppninnar er á dagskrá næsta föstudagskvöld. Þá sækja KA-menn FH-inga heim í Kaplakrika en botnlið Selfoss tekur á móti Gróttu.