Fara í efni
KA

Svekkelsisjafntefli eftir vannýtt tækifæri

Markaskorarar Þórs/KA í leik kvðöldsins, Sandra María Jessen og Margrét Árnadóttir, í baráttu inni í teig gestanna. Mynd: Þórir Tryggvason

Baráttan um 3. sæti Bestu deildar kvenna í knattspyrnu harðnar eftir að Þór/KA náði aðeins í eitt stig á heimavelli gegn Stjörnunni á meðan Víkingar úr Reykjavík kjöldrógu Skagfirðinga fyrir sunnan. Þór/KA og Stjarnan skildu jöfn, 2-2, og eru Þór/KA og Víkingar nú bæði með 29 stig þegar ein umferð er eftir af deildarkeppninni fyrir tvískiptingu.

Gestirnir úr Garðabænum voru heldur aðgangsharðari fyrstu tíu mínúturnar eða svo, en eftir það réði Þór/KA fyrri hálfleiknum. Þrátt fyrir fjölda frábærra marktækifæra skoruðu okkar konur þó aðeins einu sinni og áttu eftir að naga sig í handabökin að í leikslok að hafa ekki nýtt færin betur. 

Margrét Árnadóttir kom Þór/KA yfir með skoti af stuttu færi úr vítateignum eftir góðan undirbúning frá Huldu Ósk Jónsdóttur. Ekki liðu þó nema um tvær mínútur þar til Stjarnan náði að jafna, gegn gangi leiksins má segja. Hrefna Jónsdóttir náði þá að pota boltanum í markið eftir að tvær Stjörnukonur sóttu að Hörpu í marki Þórs/KA og henni mistókst að koma boltanum í burtu. Jafnt í leikhléi.

Lentu undir en jöfnuðu

Færin héldu áfram að líta dagsins ljós í seinni hálfleiknum, en það voru gestirnir sem voru á undan að skora. Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir skoraði þá af stuttu færi eftir að hafa komist fullauðveldlega framhjá varnarmönnum Þórs/KA. En stelpurnar í Þór/KA neituðu að gefast upp, héldu áfram að þjarma að gestunum og það skilaði loks marki á 82. mínútu. Hver önnur en Sandra María Jessen sem skoraði og auðvitað eftir sendingu frá Huldu Ósk. Þar með er ekki öll sagan sögð því áfram héldu Þór/KA-konur að skapa sér færi og til dæmis komst Hulda Ósk í kjörstöðu, ein á móti markverði Stjörnunnar, sem sá við henni. 

Niðurstaðan varð jafntefli og heimakonur í Þór/KA svekktar að hafa ekki nýtt færin betur. Þór/KA er í 3. sæti deildarinnar með 29 stig, eins og Víkingar sem eru í 4. sætinu með verri markamun. Í lokaumferðinni sem fer fram sunnudaginn 25. ágúst mætir Þór/KA Fylki á útivelli og Víkingur sækir Breiðablik heim. 

Smellið hér til að skoða leikskýrsluna og hér til að skoða stöðuna í Bestu deild kvenna.

Sandra bætir félagsmetið með hverju marki

Sandra María skoraði í kvöld sitt 18. mark í Bestu deildinni á þessu tímabili, sem er jafn mikið og hún hefur mest skorað áður í efstu deild á einu tímabili. Hún skoraði 18 mörk í Pepsi deildinni 2012 þegar Þór/KA vann Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn. Sandra María þurfti þó að sætta sig við silfurskóinn í það skiptið, með jafn mörg mörk og Elín Metta Jensen, en spilaði fleiri mínútur. Hún bætir félagsmet Þórs/KA með hverju marki sem hún skorar, en hún er nú komin í 107 mörk í efstu deild í 170 leikjum.