Fara í efni
KA

Sveinn Margeir valinn í U-21 landsliðið

Sveinn Margeir, sem þrumar hér að marki Breiðabliks á dögunum, hefur leikið mjög vel með KA í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sveinn Margeir Hauksson var í dag valinn í U-21 árs landslið Íslands sem býr sig undir umspilsleiki gegn Tékklandi fyrir lokakeppni EM 2023. Greint er frá þessu á vef KA í kvöld.

Sveinn var upphaflega ekki valinn en kallaður inn í hópinn í dag og kemur sú ákvörðun ekki á óvart því þessi sókndjarfi leikmaður hefur spilað geysilega vel með KA í sumar.

„Hann hefur tekið þátt í 24 leikjum KA í deild og bikar í sumar og gert í þeim fjögur mörk. Frá árinu 2020 hefur hann leikið 58 keppnisleiki fyrir KA en þar áður var hann í lykilhlutverki í liði Dalvíkur/Reynis,“ segir á vef KA í kvöld.

Fyrri leikur Íslands og Tékklands í umspilinu fer fram á Víkingsvelli á föstudaginn, 23. september, og sá síðari í Ceske Budojovice í Tékklandi 27. september.