Fara í efni
KA

St. Louis er spennandi skref á leið í stærstu deildir Evrópu

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Nökkvi Þeyr Þórisson verður fyrsti eyfirski knattspyrnumaðurinn til að spreyta sig í bandarísku atvinnumannadeildinni í knattspyrnu, MLS (Major League Soccer). Eins og Akureyri.net greindi frá á dögunum samdi Dalvíkingurinn við St. Louis CITY SC í Missouri ríki sem keypti hann frá belgíska liðinu Beerschot. St. Louis er í efsta sæti Vesturdeildarinnar sem stendur.

Nökkvi hefur verið á Akureyri undanfarið á meðan gengið var frá nauðsynlegum pappírum, atvinnuleyfi vestanhafs og þess háttar, en heldur til starfa hjá nýjum vinnuveitanda von bráðar.

Mjög spennandi

„Mér stóð fleira til boða en fannst St. Louis lang mest spennandi. Þeirra markmið og það sem þeir vilja gera með mér er þannig að mér fannst ekki hægt að segja nei; það er alveg í takt við mín markmið og þess vegna kom ekkert annað til greina eftir að ég fundaði með þeim,“ segir Nökkvi í viðtali við Akureyri.net.

Framherjinn segist mjög spenntur fyrir ævintýrinu sem framundan er í Bandaríkjunum.

Nökkvi Þeyr Þórisson, María Lillý Ragnarsdóttir og Líam Gabríel á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Nökkvi sló í gegn með KA í fyrrasumar og varð markakóngur Íslandsmótsins þótt hann færi utan löngu áður en mótinu lauk. Honum gekk vel í Belgíu í vetur en liðið náði ekki því markmiði að vinna sér sæti í efstu deild og fyrst svo fór var ljóst að hann yrði ekki áfram hjá félaginu. „Ég fór til liðs sem ætlaði sér upp og gerði forráðamönnum Beerschot grein fyrir því strax og ég samdi við þá að ef markmiðið næðist ekki þá myndi ég skoða hvað annað væri í boði.“

Líam Gabríel langbesta „markið“

Margt hefur gerst síðustu misseri í lífi knattspyrnumannsins, sem verður 24 ára eftir nokkra daga, og kærustu hans, Maríu Lillýjar Ragnarsdóttur. Þau settust að erlendis þegar draumurinn um atvinnumennsku varð að veruleika og eignuðust fyrsta barnið nokkrum vikum eftir að Nökkvi samdi við Beerschot.

„Þetta var mjög þroskandi tímabil því það var mikið sem gerðist á stuttum tíma,“ segir hann um síðasta vetur. „Ég fór út í september, María kom tveimur vikum seinna og svo eignuðumst við Líam Gabríel 20. nóvember,“ segir Nökkvi. Drengurinn fæddist í Belgíu.

„Við þurftum að flytja og græja allt á einum og hálfum mánuði. Svo var að undirbúa það að eignast barn; þetta var mikið fjör.“

Nökkvi brosir breitt þegar Akureyri.net nefnir það sem tengdamóðir hans, Ólöf Ásta Salmannsdóttir, hélt fram í spjalli við ofanritaðan: að Líam Gabríel væri lang besta markið á ferlinum!

„Já, svo sannarlega! Það kemst ekkert nálægt því að eignast soninn!“

Nökkvi á fleygiferð með boltann í leik með Beerschot í vetur.

Nökkvi segir allt hafa gengið eins og í sögu síðan Líam Gabríel kom í heiminn. „Það hefur gengið ævintýralega vel. Við fengum svo mikla hjálp eftir að María kom út; tengdó kom út í byrjun nóvember og var fram yfir fæðingu og svo komu pabbi og mamma 10. desember og voru hjá okkur þangað til við fórum heim til Íslands í jólafrí viku síðar. Það var því ekki fyrr en eftir áramót sem við urðum ein og að lítilli fjölskyldu; þá fórum við að læra að vera þrjú saman!“

Nökkvi segist átta sig á því, þegar hann lítur til baka, hve mikilvægt hafi verið að fá alla aðstoðina frá foreldrum þeirra Maríu. „Ég er ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið svona miklu hjálp. Það var allt miklu viðráðanlegra.“

María er aðal hetjan

Dalvíkingurinn er augljóslega afar hamingjusamur og hrósar kærustunni í hástert. „María er auðvitað aðal hetjan í þessu öllu. Það er alveg sama hvað dynur á, hún tekur öllu með brosi á vör. Maður gleymir því stundum hve miklu María er að fórna, hún lætur mér alltaf líða eins og allt sé sjálfsagt sem ég er að gera og ég er ótrúlega þakklátur fyrir það.“

Breytingin í lífi þeirra var krefjandi, segir Nökkvi, og mikill lærdómur. „Það var rosalega þroskandi að vera ein í útlöndum, ekki með neitt bakland og þá reyndi mikið á Maríu,“ segir hann um tímann eftir áramót. „Hún tókst á við öll verkefni eins og hetja, ég reyndi að hjálpa eins mikið til og ég gat þegar ég kom heim af æfingu eða átti frídag. Mér fannst það líka gaman og tilbreyting að fara ekki beint í endurheimt – beint upp í sófa að hvíla sig – heldur að skipta á litla pjakknum og leika við hann.“

Nökkvi fagnar 17. og síðasta markinu fyrir KA á síðasta keppnistímabili ásamt Hallgrími Mar Steingrímssyni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Gekk vel en liðið missti flugið

Nökkvi hélt til Belgíu á miðvikudegi, fékk leikheimild á föstudegi og tók þátt í fyrsta leiknum á laugardegi. „Ég kom inná í þeim leik og var svo í byrjunarliðinu í öllum leikjum fram á vor.“

Beerschot var efst í deildinni um áramót en síðan hallaði undan fæti og liðinu tókst ekki að komast upp í efstu deild eins og áður sagði. „Þegar við byrjuðum aftur eftir jólafrí tók við mjög erfiður kafli þar sem við töpuðum of mörgum stigum – við náðum ekki að halda áfram að leika eins vel og fyrir áramót, þegar allt leit mjög vel út. Þegar við komumst svo aftur á skrið vorum við búnir að missa af lestinni,“ segir Nökkvi.

Persónulega segist Nökkvi hafa átt mjög gott tímabil. „Ég skoraði átta mörk og átti þrjár stoðsendingar, og það skilaði mér þessum samningi í Bandaríkjunum,“ segir hann, en erfitt sé að átta sig á því nákvæmlega hvað fór úrskeiðis hjá liðinu. „Kannski hafa liðin verið búin að lesa aðeins betur í það hvernig við spiluðum og áttað sig á því hvernig best að verjast okkur,“ segir hann og nefnir að eftir áramót hafi Beerschot ekki skorað nema fjögur mörk í 11 leikjum.

Nökkvi heima á Akureyri á dögunum – „Næstu misserin mun ég því einblína á að standa mig vel hjá St. Louis og þá veit ég að ég fæ þau tækifæri sem ég vil.“ Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson 

Vilja þróa mig og selja í stóra deild

Nökkvi nefndi fyrr í samtalinu við Akureyri.net að markmið St. Louis væru í takt við hans eigin. „Þeir líta á sig sem þróunarlið; þeir vilja kaupa leikmenn, gera þá betri og selja síðan í einhverja af stóru fimm deildunum í Evrópu. Það er ekkert launungarmál að ég stefni eins hátt og mögulegt er – ég stefni á að spila í einhverri þessara fimm deilda,“ segir Nökkvi.

Þar er um að ræða efstu deild í Englandi, Þýskalandi, Spáni, Ítalíu og Frakklandi. „Næstu misserin mun ég því einblína á að standa mig vel hjá St. Louis og þá veit ég að ég fæ þau tækifæri sem ég vil.“

Nökkvi í leik með 3. flokki Þórs gegn KA sumarið 2015. Andstæðingurinn er Bjarni Aðalsteinsson en strákarnir voru samherjar í meistaraflokki KA í nokkur ár þar til Nökkvi fór til Belgíu í fyrrahaust. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Skotinn í Bundesligunni“

Nökkvi Þeyr og tvíburabróðir hans, Þorri Mar, ólust upp á Dalvík og léku bæði með liði Dalvíkur og Þór í yngri aldursflokkum, áður en þeir sömdu við Hannover 96 í Þýskalandi, aðeins 15 ára gamlir árið 2015. Þeir snéru aftur til Dalvíkur sumarið 2018 og sömdu síðan við KA fyrir keppnistímabilið 2019.

Nökkvi þekkir sem sagt til í Þýskalandi og segir ekkert launungarmál að hann sé „skotinn í Bundesligunni,“ eins og hann tekur til orða; Bundesligan er efst deildin í Þýskaland.

Þjálfari St. Louis er Bradley Carness frá Suður-Afríku og lék einmitt lengi í Þýskalandi, m.a. með VfB Stuttgart og Borussia Mönchengladbach. Nökkvi segir marga Evrópubúa í leikmannahópi félagsins.

„Þeir kaupa mig sem vinstri kantmann en sjá mig líka sem Tíu – að ég geti spilað rétt fyrir aftan fremsta mann,“ segir hann um forráðamenn St. Louis. „Ég er bestur sem vinstri kantmaður og lék mestmegnis í þeirri stöðu með Beerschot en var reyndar notaður í ótrúlegustu stöður þegar þurfti.“

Nökkvi lék á vinstri kanti í rúmlega helmingi þeirra 28 leikja sem hann tók þátt í með belgíska liðinu.

„Mér finnst Tíu staðan spennandi og veit að styrkleikar mínir myndu henta vel þar; þá hefur maður það frjálsræði að fara út á kantana, fara aftar á völlinn og nýta svo hraðann til að koma fram og inn í teig. En ég sé mig samt fyrst og fremst sem vinstri kantmann. Ég er spenntastur fyrir þeirri stöðu, veit að ég gæti þróað mig enn frekar þar og farið mjög langt.“

Tvíburarnir Nökkvi Þeyr og Þorri Mar ásamt foreldrum sínum, Þóri Áskelssyni og Hugrúnu Felixdóttur. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Ef þeim líður vel er ég ánægður

Eins og þegar Belgíuævintýrið hófst fer Nökkvi einn til Bandaríkjanna en María og foreldrar hennar, Ólöf Ásta Salmannsdóttir sem áður var nefnd og Ragnar Hauksson, halda til Belgíu til að pakka búslóð kærustuparsins og koma því vestur til St. Louis. „Eftir það koma þau svo til mín. Þá verð ég búinn að skoða íbúðir og koma mér inn í hlutina.“

St. Louis er jafnan talan meðal hættulegustu borga Bandaríkjanna, jafnvel efst á þeim vafasama lista, en Nökkvi segir forráðamenn félagsins hafa farið vel yfir þau mál með þeim Maríu. „Þeir kynntu okkur borgina ítarlega, útskýrðu tölfræðina sem oft er birt um St. Louis sem glæpaborg og María lagðist líka í rannsóknarvinnu um borgina,“ segir Nökkvi. „Hún setti sig í samband við kærustu eins stráksins í liðinu sem gat sagt hann allt um það hvernig er að búa í borginni. María er ánægð með allar upplýsingarnar sem hún fékk og það skiptir mestu máli hvernig henni og Líam líður; ef þeim líður vel þá er ég ánægður.“