Fara í efni
KA

Stelpurnar nældu í stig á Selfossi

Karen María Sigurgeirsdóttir gerði glæsilegt mark fyrir Þór/KA á Selfossi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór/KA og Selfoss skildu jöfn, 1:1, á Selfossi í kvöld í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins. Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði fyrir Þór/KA með mögnuðu skoti á 34. mínútu og það var ekki fyrr en tíu mínútum fyrir leikslok sem heimamenn náðu að jafna, einnig með glæsilegu skoti.

Frammistaða Stelpnanna okkar var framúrskarandi. Leikur liðsins var vel skipulagður og agaður og Þór/KA var ekki langt frá því að næla í þrjú dýrmæt stig. Selfyssingar eru í þriðja sæti deildarinnar, hafa leikið vel í sumar og því er það vel að verki staðið að gera jafntefli við þá á útivelli.

Hvorugt liðið tók mikla áhættu framan af og lítið var um færi. Það var svo eftir rúman hálftíma að Karen María skoraði og uppskriftin að markinu var einföld: Harpa Jóhannsdóttir, markvörður Þórs/KA, spyrnti fram, Emmu Checker, fyrirliða Selfyssinga, mistókst að skalla boltann eins vel og til stóð svo hann hrökk til Karenar. Hún þakkaði kærlega fyrir og þrumaði boltanum í netið úr horni vítateigsins. Glæsilega gert!

Selfyssingar voru miklu meira með boltann í seinni hálfleiknum, lið Þórs/KA varðist mjög skipulega og náði að halda aftur af heimamönnum lengi vel. Arna Sif Ásgrímsdóttir, besti maður vallarins, stjórnaði varnarleik Þórs/KA eins og drottning í ríki sínu og það var ekki fyrr en seint í leiknum, eftir að Selfyssingar fækkuðu í vörninni og settu enn meiri kraft í sóknina, að þeir fundu á glufu. Eva Núra Abrahamsdóttir skoraði þá með föstu skoti úr teignum; boltinn small í þverslánni og þaðan í netið.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.