Fara í efni
KA

Stelpurnar í U19 fara í lokakeppni EM í sumar

U19 landsliðið að loknum sigrinum á Svíum í dag. Myndin er af Facebook-síðu KSÍ. Ísfold er lengst til vinstri í aftari röð, Jakobína lengst til hægri í aftari röð og Kimberley lengst til hægri í fremri röð.

Landslið kvenna 19 ára og yngri í knattspyrnu tryggði sér í dag sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Belgíu 18.-30. júlí í sumar. Ísland vann Svíþjóð í dag 2:1 og hafði áður unnið Danmörku 1:0 í milliriðli sem fer fram í dönsku borginni Köge þessa dagana.

Þrjár úr meistaraflokkshópi Þórs/KA, þær Ísfold Marý Sigtryggsdóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir eru með landsliðinu ytra. Jakobína hefur spilað báða leikina og Ísfold tók þátt í þeim fyrri.

Sigrarnir tveir tryggja Íslandi efsta sæti riðilsins og þar með sæti í lokakeppninni þó svo að leikur við Úkraínu sé eftir. Þótt sá leikur tapaðist og Danir eða Svíar næðu Íslendingum að stigum skipti það ekki máli; íslensku stelpurnar halda efsta sætinu hvernig sem fer vegna árangurs í innbyrðis viðureignum við frændþjóðirnar tvær.

Smellið hér til að sjá Facebook síðu KSÍ þar sem stelpurnar í landsliðinu fagna sigrinum innilega.