Fara í efni
KA

Steinþór Már semur við KA til tveggja ára

Steinþór Már Auðunsson í búningi Magna á Grenivíkurvelli. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Markvörðurinn Steinþór Már Auðunsson, sem leikið hefur með knattspyrnuliði Magna á Grenivík undanfarin ár, hefur samið til tveggja ára við KA. Steinþór verður 31 árs í byrjun febrúar.

Steinþór er uppalinn hjá KA og lék tvo deildarleiki með meistaraflokki félagsins sumarið 2007, þá aðeins 17 ára. Frá árinu 2010 hefur hann hinsvegar leikið með öðrum liðum á Norðurlandi; Völsungi, Dalvík/Reyni, Þór og Magna. „Með Magna var hann lykilleikmaður í ævintýrinu í næstefstu deild sem lauk á grátlegan hátt er síðasta tímabili var aflýst vegna Covid veirunnar,“ segir á heimasíðu KA, þar sem tilkynnt er um félagaskiptin.

Bosníumaðurinn Kristijan Jajalo samdi við KA á ný í haust en hinn markvörður liðsins, Aron Dagur Birnuson, hvarf á braut og samdi við Grindavík.