Fara í efni
KA

Steinþór í bann út árið vegna veðmála

Steinþór Freyr Þorsteinsson, knattspyrnumaður í KA, hefur verið úrskurðaður í bann frá allri þátttöku í knattspyrnu út þetta ár, vegna ítrekaðra brota á reglum um veðmálastarfsemi á nokkurra ára tímabili. Aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands kvað upp þann úrskurð í dag.

Í eitt skipti veðjaði Steinþór Freyr á leik sem hann tók sjálfur þátt í en við ákvörðun viðurlaga segist nefndin m.a. hafa tekið tillit til þess að  „ekkert liggur fyrir um að  að kærði hafi með brotum sín reynt að hagræða úrslitum leikja.“

Í úrskurði nefndarinnar segir meðal annars að Steinþór hafi á fimm ára tímabili gerst sekur um ítrekuð brot gegn ákvæðum laga KSÍ sem ætlað sé að standa vörð um heilindi og háttvísi í knattspyrnuhreyfingunni. „Þegar aðili, sem fellur undir lögin, gerist uppvís af þátttöku í veðmálastarfsemi í tengslum við eigin leiki og eigið mót brýtur það gegn grundvallarreglu um heiðarlegan leik gagnvart öllum þátttakendum leiksins.“

Í greinargerð leikmannsins til KSÍ viðurkennir hann sök að fullu og biðst afsökunar á að hafa varpað rýrð á knattspyrnuhreyfinguna. Hann óskaði eftir vægustu refsingu sem völ er á og vísaði m.a. til þess að hann hafi játað sök, „og taki fulla ábyrgð á háttsemi sinni, ekki liggi grunur á að neitt óeðlilegt hafi átt sér stað í viðkomandi leikjum, aðeins hafi verið um að ræða eitt tilvik þar sem kærði tók þátt í viðkomandi knattspyrnuleik, um fá veðmál hafi verið að ræða yfir langt tímabil og að kærði hafi ekki hagnast á viðkomandi veðmálum,“ segir aga- og úrskurðarnefnd þar sem hún vísar í greinargerð leikmannsins.

Smellið hér til að sjá úrskurðinn í heild.