Fara í efni
KA

Steinþór semur við KA út næstu leiktíð

Steinþór Freyr Þorsteinsson skorar sigurmark KA í sigri á Gróttu á Akureyrarvelli í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Knattspyrnudeild KA og Steinþór Freyr Þorsteinsson hafa samið um að framlengja samning leikmannsins um eitt ár og því ljóst að Steinþór leikur með KA á næstu leiktíð. Þetta kemur fram á heimasíðu KA.

„Þetta eru miklar gleðifregnir enda er Steinþór öflugur leikmaður og flottur karakter sem hefur komið sterkur inn í félagið,“ segir á heimasíðunni.

Steinþór lauk nýverið fjórða tímabilinu með KA eftir að hafa komið frá Sandnes Ulf í Noregi. Hann er 35 ára, hefur leikið 60 leiki fyrir KA í deild og bikar og gert fimm mörk. Fjögur þessara marka komu í sumar og gaman að geta til þess að KA hefur ekki tapað leik þegar Steinþór hefur komist á blað.

„Steinþór er fæddur árið 1985 og er uppalinn hjá Breiðablik í Kópavogi þar sem hann hóf að leika með meistaraflokki aðeins 17 ára gamall. Árið 2009 gekk hann til liðs við Stjörnuna og sló þar í gegn og var valinn í A-landslið Íslands sama ár. Steinþór hefur leikið 8 landsleiki fyrir Ísland og fjölmarga yngrilandsliðsleiki.

Það er afar jákvætt skref að halda Steinþóri áfram innan okkar raða en auk þess að vera öflugur leikmaður er hann frábær liðsmaður auk þess að vera flott fyrirmynd fyrir hina fjölmörgu ungu leikmenn okkar og mun halda áfram að miðla sinni miklu reynslu til þeirra,“ segir á heimasíðu KA.