Fara í efni
KA

„Spennandi tækifæri í áhugaverðu landi“

Sveinbjörn Pétursson var leystur út með gjöfum þegar hann kvaddi þýska félagið EHV Aue í vor.

„Ég lít á þetta sem spennandi tækifæri í áhugaverðu landi; eitthvað sem ég gat ekki látið framhjá mér fara þegar það kom upp,“ sagði handboltamaðurinn Sveinbjörn Pétursson í dag. Hann hefur samið við ísraelska félagið Hapoel Ashdod eins og Akureyri.net greindi frá í gærkvöldi. Fréttin vakti mikla athygli eins og nærri má geta.

Sveinbjörn er fyrsti íslenski handboltamaðurinn sem gengur til liðs við ísraelskt lið.

„Eftir að hafa heyrt í strákum sem hafa spilað þarna áður og eru að spila þarna núna þá sannfærðist ég enn frekar. Þetta er falleg borg við Miðjarðarhafið og vel hugsað um menn sem koma þangað að spila,“ sagði Sveinbjörn við Akureyri.net í dag.

Spurður hvernig þetta hafi komið til segir hann: „Það er nú bara eins og gengur og gerist í þessum handbolta. Það datt inná borð til umboðsmannsins míns að þetta lið væri að leita að markmanni og ég lét hann vita að ég væri forvitinn um þetta.“

Sveinbjörn segir að eftir að hann sýndi því áhuga að semja við félagið hafi það gengið nokkuð fljótt og vel fyrir sig. „Svo var þetta tilboð sem erfitt var að hafna þegar það kom. Það eru því bara ævintýri framundan næstu 10 mánuði. Við sjáum síðan til með framhaldið.“

Borgin Ashdod er rúmlega 30 kílómetrum sunnan við Tel Aviv og aðeins tæpum 50 kílómetrum norðan Gaza strandarinnar, þar sem miklar hörmungar hafa átt sér stað síðustu mánuði. Sveinbjörn var spurður hvort hann óttaðist ekkert að flytja á svæðið, annars vegar vegna stríðsins á Gaza og hins vegar vegna mikillar gagnrýni á Ísraelsmenn vegna ástandsins þar.

„Hjá mér er enginn ótti að fara þangað, ég kem þangað sem gestur og mun bera virðingu fyrir þeirra siðum og hefðum,“ segir Sveinbjörn. „Fólk má hafa sitt álit á hverju sem er, það er eitthvað sem truflar mig ekkert. Ég er að fara þangað til að spila handbolta og upplifa nýjan heim með kærustunni minni og við erum bara spennt og glöð yfir því.“

Sveinbjörn til liðs við Ashdod í Ísrael

Ísraelska félagið Hapoel Ashdod kynnti Sveinbjörn Pétursson til leiks í gær.