Fara í efni
KA

Sjötta jafntefli KA í nítján deildarleikjum

Daníel Hafsteinsson og Stjörnumaðurinn Kjartan Már Kjartansson í leiknum í dag. Daníel var nálægt því að skora á lokasekúndu leiksins þegar hann skallaði boltann í stöng. Í næstu andrá var leikurinn flautaður af. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason

KA og Stjarnan gerðu 1-1 jafntefli í 19. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í dag. Bæði lið berjast fyrir því í lokaumferðunum þremur að færa sig upp í efri hluta deildarinnar áður en henni verður skipt í tvennt. 

KA-menn voru snöggir í gang og strax á 8. mínútu skoraði Ásgeir Sigurgeirsson og kom KA í 1-0 eftir góðan undirbúning Daníels Hafsteinssonar og Kára Gautasonar. Í fyrstu var markið skráð inn á leikskýrsluna sem sjálfsmark Daníels Laxdal og í upphaflegri umfjöllun hér var farið eftir því, en því var síðan breytt í skýrslunni og markið skráð á Ásgeir. Skot Ásgeirs fór vissulega í fót Daníels, en dómari hefur við nánari athugun metið það svo að boltinn hafi stefnt á markið. Reglan er sú að ef skotið er á leið framhjá markinu, en breytir um stefnu af varnarmanni þá er skráð sjálfsmark.

Forysta KA hélt þó ekki út fyrri hálfleikinn því þegar um hálftími var liðinn fengu þeir dæmda á sig vítaspyrnu sem Jóhann Árni Gunnarsson skoraði úr af öryggi.

Eftir öfluga byrjun KA voru það gestirnir sem gerðust aðgangsharðari þegar leið á fyrri hálfleikinn, en engu að síður jafnt í leikhléi, 1-1. Hvoru liði tókst að skora í þeim seinni og annað 1-1 jafntefli því staðreynd í karlaknattspyrnunni á Akureyri í dag.

KA er áfram í 8. sæti deildarinnar, nú með 24 stig, einu stigi á eftir Stjörnunni. Þar fyrir ofan, í efri hlutanum, eru Fram með 25 stig og FH með 28, en bæði eiga þau leik til góða á KA og Stjörnuna. KA mætir einmitt Fram á útivelli í næstu umferð, sunnudaginn 25. ágúst, en á svo einnig eftir að mæta Breiðabliki á heimavelli og ÍA á útivelli. 

Smellið hér til að skoða leikskýrsluna og hér til að skoða stöðuna og leikjadagskrá í Bestu deild karla.

Nýjasti leikmaður KA, Dagur Ingi Valsson, sem sagði í viðtali við fótboltavefinn fotbolti.net að hann hafi alltaf langað til að leika með KA, fékk þann draum uppfylltan í dag þegar hann kom inn sem varamaður á 66. mínútu. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason