Fara í efni
KA

Sigur í dag og silfur í safnið – MYNDIR

Silfurfögnuður! Leikmenn og þjálfarateymi KA brosa breitt fyrir Þóri Tryggvason ljósmyndara að leikslokum í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA varð í öðru sæti efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu í sumar eins og fram kom á Akureyri.net í dag. Þetta er næst besti árangur í sögu félagsins. KA-menn unnu Val 2:0 á heimavelli í dag í lokaumferðinni og hlutu þar með 53 stig í Bestu deildinni en Víkingar, sem töpuðu 1:0 fyrir Íslandsmeisturum Breiðabliks í Kópavogi, urðu í þriðja sæti með 48 stig. Blikarnir hlutu alls 63 stig og fengu hinn nýja Íslandsmeistaraskjöld afhentan í dag.

Sigur KA á Val í dag var nokkuð þægilegur. Leikurinn á Greifavellinum nýja (gervigrasvellinum sunnan við KA-heimilið) var í jafnvægi fyrsta hálftímann eða svo en eftir að einn varnarmanna Vals var rekinn út af og KA tók forystu var aldrei spurning hvernig færi. Valsmenn ógnuðu ekki að neinu marki, leikmenn liðsins höfðu bersýnilega ekki að neinu að keppa og tíminn leið hægt og rólega þar til KA-menn gátu tekið til við að fagna! Sannarlega góður dagur í fallegri haustsól norður í landi. 

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.

_ _ _

BANNAÐ AÐ „HALDA KJAFTI“
Belginn Bryan Van Den Bogaert, fékk áminningu skömmu áður en KA náði forystunni, fyrir að halda kjafti! Síðar í fyrri hálfleiknum var engu líkara en markvörðurinn Kristian Jajalo vildi þagga niður í þeim belgíska eftir hornspyrnu!

_ _ _

RAUTT SPJALD OG VÍTI – 1:0 
KA náði forystu þegar tæpur hálftími var liðinn af leiknum. Silfurdrengirnir geta að mestu þakkað það fádæma lélegum varnarleik gestanna frá Hlíðarenda. Þeir áttu markspyrnu og ákváðu að hefja leik með stuttri sendingu í vítateignum eins og algengt er orðið. KA-menn voru vel vakandi, trufluðu Valsara fljótt og náðu boltanum, og Hallgrímur Mar sendi fyrir markið á Daníel Hafsteinsson í góðu færi. Daníel skaut en varnarmaðurinn Lasse Petry varði á marklínu, með hendi að mati dómarans, Gunnars Odds Hafliðasonar. Hann benti á vítapunktinn og rak Valsarann af velli þrátt fyrir áköf mótmæli Petry og samherja hans sem vildu meina að boltinn hefði ekki farið i hönd hans. Ekki mótmæli Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, af minni krafti; útsýnið er jafnan óvenju gott frá varamannabekkjum knattspyrnuliða. Það hefur margoft sýnt sig. Hallgrímur Mar Steingrímsson tók vítið og skoraði af fádæma öryggi. 

_ _ _

HALLGRÍMUR SKORAR AFTUR
Seinna mark KA kom þegar fimm mín. voru eftir af fyrri hálfleik. Hallgrímur Mar fékk sendingu af vinstri kantinum, var staddur rétt fyrir utan vítateigs, hafði tíma til að athafna sig og skoraði með glæsilegu vinstri fótar skoti; þrumaði boltanum neðst í vinstra markhornið, á nákvæmlega sama stað og þegar hann tók vítið. Markaskorarinn fagnaði svo með stæl; tók Cristiano Ronaldo stökkið!

_ _ _

GLEÐIN VIÐ VÖLD
KA-menn fengu afhenta silfurpeninga fyrir annað sæti á Íslandsmótinu eftir leikinn í dag og sungu gleðisöngva ásamt stuðningsmönnum sínum. Gleðin var sannarlega við völd og átti að vera áfram í kvöld, þegar Evrópufögnuður KA fer fram í Sjallanum.