Fara í efni
KA

Sigmundur Ernir: EFTIR LEIK

Stuðningsmenn KA á Laugardalsvellinum í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sigmundur Ernir Rúnarsson sjónvarpsmaður og rithöfundur til áratuga er mikill KA-maður. Hann varð við þeirri beiðni Akureyri.net að skrifa tvo pistla í tilefni bikarúrslitaleiks KA og Víkings sem fram fór á Laugardalsvelli í gær. Fyrri grein Sigmundar birtist í gær og hér er sú síðari. Gjörið svo vel!
_ _ _

Reglan er þessi: Á rúmlega sjö ára fresti kemst KA í bikarúrslitaleik á þjóðarleikvangi Íslendinga í Laugardal. Þannig hefur það verið í þrjátíu ár. Samfleytt.

Og árangurinn er sá að liðið hefur alltaf hampað silfrinu.

Aldrei neitt minna en það.

Og það er út af fyrir sig stöðugleiki.

Mér var samt kalt allan leikdaginn í ár. Ég fann það á eigin skinni og taugakerfinu, gott ef ekki í liðamótunum um líkamann allan.

Það var suddi.

Og auðvitað ekki bjóðandi norðanmönnum úr ylvolgum Eyjafirðinum að leika knattspyrnu í rigningu sem rápar lóðrétt inn í bringu manns og brjóst. Það er ekki veður. Og eitthvað svo sunnlenskt að strax við þefjanina af þessum úrsvala óþverra fann maður að tólfti maðurinn – þessi rauða viðvörun – væri gengin í lið andstæðinganna.

KA venur æfingar sínar og undirbúning við blíðviðri. Og hvergi fer lognið hægar yfir en á efri Brekkunni á Akureyri. Það er nefnilega svo að það telur sig eiga heima þar. Lognið. Stundum sunnanþeyrinn. En alltaf blíðviðrið. Og sólin sjálf. Sú gula.

En það stappaði nærri því að Almannavarnir yrðu að lýsa yfir hættustigi þegar heimadómarinn í Laugardalnum blés til leiks að þessu sinni, en sér til hjálpar hafði hann líka heimalínuverði sem hafa sjálfsagt aldrei komið út fyrir Elliðaárnar.

Það sást á hlaupalagi þeirra.

Þar vantaði allan þúfnadúandann.

Og þeir dæmdu eftir því, vitlaust, reykvískt.

En við sátum þarna þrír í tæplega fullri stúkunni, faðirinn og synirnir tveir úr Hafnarfirði og Vesturbænum með þann þriðja á línunni frá Hammersby allé í Stokkhólmi.

Og við vorum klæddir föðurlandi og móðurlandi og regngalla og vindfatnaði af vönduðustu gerð, með vandlega saumaða værðarvoðina yfir leggjum okkar og lendum, en allt kom fyrir ekki, það var kalt í Laugardalnum að þessu sinni.

Og rigningin, svo ofboðsleg sem hún var, rann upp í nasirnar á leikmönnum.

Þess vegna komust andstæðingarnir yfir undir lokin á fyrrihálfleik. Gula liðið átti bara ekki að venjast svona veðurfari. Skýringin er ekki önnur.

En svona hefur þetta verið frá 1992.

Man hvað ég bar taugakerfið utan á mér á þeim leik. KA – Valur. Og ekki nema þrjú ár frá því við urðum Íslandsmeistarar. Brosið ekki farið af sméttinu.

En við vorum ekki að keppa við Val þann daginn, heldur einhvern dómadagsdómara að nafni Braga Bergmann sem framlengdi seinni hálfleikinn í slíkan óratíma að Valsmenn gátu ekki annað en jafnað leikinn. Og annað hefði verið knattspyrnulega óhugsandi.

Bragi vann þann leik.

Bragðarefurinn.

Og svo komumst við í vítaspyrnukeppni í næsta úrslitaleik, sem við KA-menn kunnum ekki að spila, af því að við viljum leiða leiki til lykta af heiðarleika, ekki heppni, og ætli það hafi ekki verið þremur árum seinna sem þriðji leikurinn tapaðist, en það var af því að allir menn sem þekkja til mannvirðingar og æðruleysis finna til með Keflvíkingum.

Merkilegt samt að sitja í stúku. Með sínu fólki. Gulu og glöðu. Bláu og baráttuglöðu. Vera af þessu kyni. Geta bara faðmað næsta mann án þess að hafa hitt hann nokkru sinni áður, eða bara kassað einhverja konu af næsta bekk, gefið henni fimm og fengið hana í hipp og hæl. Sjá hann svo kannski aldrei aftur.

En vingast svo að segja á sekúndubroti og svo ekki meir.

Þannig er uppskriftin: Tveir sneisafullir bollar af uppruna, með dassi af aðdáun og stolti, kryddaðir eftir hendinni með aðdáun og óþreyju eftir næsta sigri.

Og smakkast eins svo árum skiptir.

Já, áratugum. Ævina á enda.

Við náðum silfrinu í dag. Ekki ósvipað og okkar menn á Olympíuleikunum í Peking um árið. Man hvað því var fagnað lengi og innilega. Öllum götum í Reykjavík var lokað við heimkomu liðsins.

Og ég ætla að gera mér það að góðu, enn um sinn, silfrið spegilfægða – enda veit ég sem er að það eru ekki nema ríflega sjö ár í næsta bikarúrslitaleik okkar manna.

Og tölfræðin er öll á okkar bandi.

Sigmundur Ernir Rúnarsson er KA-maður

Smellið hér til að lesa fyrri grein Sigmundar Ernis