Fara í efni
KA

Sex Íslandsmeistarar KA og þrjú Íslandsmet

KA-mennirnir á mótinu. Efri röð frá vinstri, Viktor Samúelsson, Alex Cambray Orrason og Þorsteinn Ægir Óttarsson. Neðri röð frá vinstri: Örvar Samúelsson, Drífa Hrund Ríkharðsdóttir, Grímur Már Arnarsson og Erling Tom Erlingsson. Myndir af heimasíðu KA.

KA eignaðist sex Íslandsmeistara í kraftlyftingum um helgina og fulltrúar félagsins settu þrjú Íslandsmet. Þá nældi KA-maður ein nig í ein silfurverðlaun á mótinu og KA varð í öðru sæti í stigakeppni liða í karlaflokki.

Íslandsmeistaramót Kraftlyftingasambandsins (KRAFT) fór fram hjá lyftingadeild Stjörnunnar í Miðgarði í Garðabæ á laugardag. Keppt var í þyngdarflokkum bæði í klassískum kraftlyftingum og búnaðarlyftingum.

  • Munurinn á klassískum kraftlyftingum og búnaðarlyftingum, sem svo eru kallaðar, er sá að í þeim klassísku má ekki notast við neinn aukabúnað eins og brekkpressuboli eða stálbrækur. Hnévafningar sem hægt er að herða að eins og með frönskum rennilás eru einnig bannaðir. Aðeins má nota hnéhólka sem ekki er hægt að herða og vafninga fyrir úlnlið.
  • Að öðru leyti er keppni í klassískum kraftlyftingum alveg eins. Keppt er í bekkpressu, hnébeygju og réttstöðulyftu og dómarar dæma eftir sömu viðmiðum og í lyftingum með búnaði. Eini munurinn liggur í skoðun búnaðar áður en keppni hefst.

Fimm KA-mannanna á Íslandsmeistaramótinu. Frá vinstri: Viktor Samúelsson, Alex Cambray Orrason, Grímur Már Arnarsson, Örvar Samúelsson og Þorsteinn Ægir Óttarsson.

KA átti sjö keppendur á mótinu, sex karla og eina konu. Lyftingadeild KA var stofnuð 24. mars 2022 og var þetta í fyrsta skipti sem KA sendir keppendur á kraftlyftingamót í mörg ár. Fjallað er um árangur KA-fólksinsd á heimasíðu félagsins.

  • Drífa Hrund Ríkarðsdóttir keppti í -57 kg flokki kvenna í klassískum kraftlyftingum. Þetta var frumraun Drífu í keppni, hún lyfti þyngst 125 kg í hnébeygju, 65 kg í bekkpressu og í réttstöðulyftu sló hún Íslandsmetið í þyngdarflokknum með því að lyfta 160 kg. Drífa Hrund var eini keppandinn í þyngdarflokknum og varð því að sjálfsögðu Íslandsmeistari.
  • Grímur Már Arnarsson keppti í -93 kg flokki karla í klassískum kraftlyftingum, en Grímur sem er fæddur árið 2003 er gjaldgengur í ungmennaflokk. Grímur lyfti 222,5 kg í hnébeygju, 160 kg í bekkpressu og 245 kg í réttstöðulyftu. Hann bætti þar með persónulegan árangur í öllum lyftum og samanlagðri þyngd á mótinu og skilaði það honum silfurverðlaunum í öflugum flokki.

Í -105kg flokki karla í klassískum kraftlyftingum átti KA tvo keppendur, Viktor Samúelsson og Erling Tom Erlingsson.

  • Viktor Samúelsson gerði sér lítið fyrir og sigraði í flokknum ásamt því að verða stigahæsti karl mótsins í klassískum kraftlyftingum. Viktor er því Íslandsmeistari bæði í -105 kg flokki og í opnum flokki. Hann lyfti 280 kg í hnébeygju, 201 kg í bekkpressu sem er nýtt Íslandsmet, og 320 kg í réttstöðulyftu. Viktor mun síðan keppa á heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum fyrir Íslands hönd sem fram fer á Möltu í júní.
  • Erling Tom Erlingsson er fæddur árið 1978 og er því gjaldgengur í öldungaflokk. Hann lyfti 200 kg í hnébeygju og sló þar með Íslandsmet í öldungaflokki, 115 kg í bekkpressu og 210 kg í réttstöðulyftu. Lyfturnar skiluðu honum sjötta sæti í þyngdarflokknum.
  • Örvar Samúelsson keppti í -120 kg flokki í klassískum kraftlyftingum. Örvar lyfti 247,5 kg í hnébeygju, 170 kg í bekkpressu og 260 kg í réttstöðulyftu. Hann varð fjórða sæti í öflugum þyngdarflokki.
  • Þorsteinn Ægir Óttarsson keppti í +120 kg flokki í klassískum kraftlyftingum. Hann lyfti 315 kg í hnébeygju, 190 kg í bekkpressu og 305 kg í réttstöðulyftu sem skilaði honum gullverðlaunum og Íslandsmeistaratitli í þyngdarflokknum. Hann bætti sig í hnébeygju og réttstöðulyftu  og hefur auk þess aldrei lyft jafn miklu samanlagt.
  • Alex Cambray Orrason keppti síðan í -93 kg flokki karla í búnaðarlyftingum. Alex fékk allar sínar lyftur gildar: hann lyfti 317,5 kg í hnébeygju, 202,5 kg í bekkpressu og 275 kg í réttstöðulyftu. Hann var eini keppandinn í flokknum og hlaut því vitaskuld gullverðlaunum og Íslandsmeistaratitil, en hlaut þær vegtyllur hreint ekki bara fyrir að vera einn í flokki, því árangurinn var afar góður og Alex varð lang stigahæsti karl í búnaðarlyftingunum. Hann er því einnig Íslandsmeistari í opnum flokki í þeim. Þessa dagana undirbýr Alex sig fyrir Evrópumeistaramótið í búnaðarlyftingum sem fram fer í Danmörku í byrjun maí.

„Ljóst er að mikil gróska er í lyftingadeild KA og verður spennandi að fylgjast með starfinu á árinu,“ segir í frásögn af mótinu á heimasíðu félagsins. „Deildin heldur uppá eins árs afmæli í lok mars. Þá mun deildin standa fyrir tveimur mótum á árinu, Íslandsmeistaramótið í réttstöðulyftu fer fram 20. maí næstkomandi og sumarmót LSÍ í ólympískum lyftingum 24. júní. En bæði mótin fara fram í KA heimilinu.“

Drífa Hrund Ríkarðsdóttir þreytti frumraun sína í keppni, setti Íslandsmet og varð meistari.