Fara í efni
KA

Segir Brynjar hafa tvöfaldast í verði

Knattspyrnumaðurinn Brynjar Ingi Bjarnason er á leið til norska félagsins Vålerenga, eins og Akureyri.net greindi frá í gær. Ítalski netmiðillinn calciolecce heldur því fram að landsliðsmaðurinn sé metinn á tvöfalda þá upphæð sem Lecce greiddi KA fyrir hann í sumar. Fjölmiðillinn segir hann hafa kostað 250.000 evrur á sínum tíma, um það bil 37 milljónir en norska félagið kaupi hann á tvöfalda þá upphæð, andvirði um 75 milljóna króna. Lecce hafi því rækilega ávaxtað sitt pund á fáeinum mánuðum.

Calciolecce fullyrðir einnig að í samningi Lecce og Vålerenga sé ákvæði þess efnis að ítalska liðið fái í sinn hlut 10% af söluverði verði Brynjar seldur frá Vålerenga og að Lecce hafi meira að segja forkaupsrétt að honum; geti gengið inn í hvert það tilboð sem norska liðinu berist í Brynjar.

Rétt er að taka fram að Akureyri.net hefur ekki haft tækifæri til að sannreyna þær upphæðir sem koma fram í frétt ítalska fjölmiðilsins.