Fara í efni
KA

Sannfærandi sigur og KA-menn á toppinn

Daníel Hafsteinsson kom KA á bragðið á Akranesi með frábæru marki. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA vann mjög sannfærandi sigur á liði Akurnesinga á Skaganum í dag, 3:0, og tyllti sér í efsta sæti Bestu deildarinnar í knattspyrnu. KA er með 16 stig eftir sex leiki. Valsmenn geta komist upp að hlið KA-manna þegar þeir mæta Stjörnunni í kvöld og Breiðablik getur náð toppsætinu á ný á morgun með sigri á Íslandsmeisturum Víkings.

Fyrri hálfleikurinn á Akranesi verður ekki lengi í minnum hafður nema fyrir eitt – mark Daníels Hafsteinssonar á 12. mínútu. Markið var reyndar svo stórglæsilegt að í sjálfu sér er alveg nóg að muna bara eftir því!

KA-menn bætti tveimur mörkum við í seinni hálfleik, léku prýðilega og sigurinn var býsna þægilegur. Skagamenn fengu reyndar víti þegar staðan var 2:0 en Steinþór Stubbur Auðunsson varði slaka spyrnu Gísla Laxdal Unnarssonar. Ekki nóg með að Steinþór varði vítið, hann greip boltann.

0:1 – 12. mínúta – Eftir hornspyrnu var boltanum spyrnt inn á vítateig ÍA, markvörður ÍA sló boltann frá, Daníel Hafsteinsson fékk hann rúllandi til sín og hann Daníel boltann viðstöðulaust frá vítateig efst í vinstra hornið. Stórbrotið mark!

0:2 – 53. mínúta – Elfar Árni Aðalsteinsson fékk sendingu fram vinstri kantinn, hafði betur í kapphlaupi við varnarmann, lék inn á teig og skoraði framhjá markmanninum sem kom út á móti.

0:3 – 81. mínúta – Daníel Hafsteinsson fékk boltann í miðjum vítateignum, skot hans var afleitt en fátt er svo með öllu illt að ei boði gott; spyrna Daníels fór beint til Jakobs Snæs Árnasonar sem skoraði auðveldlega af stuttu færi.

KA liðið var sannfærandi í dag; sýndi enga sparitakta enda voru aðstæður heldur erfiðar, töluverur vindur og völlurinn ekki mjög góður, en KA-menn gerðu sannarlega það sem þurfti. Gerðu þrjú mörk og gáfu mjög fá færi á sér. 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna