Fara í efni
KA

Varamaðurinn skoraði tvö og tryggði sigur

Sandra Nabweteme var hetja Þórs/KA á Sauðárkróki í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sandra Nabweteme var hetja Þórs/​KA í kvöld þegar liðið vann Tindastól 2:1 efstu deild Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni, á Sauðárkróki.

Sandra kom inn á á 68. mínútu, skoraði á þeirri 70. og jafnaði 1:1, því Murielle Tiernan hafði náði forystu fyrir heimaliðið í fyrri hálfleik. Það var svo þegar fjögurra mínútna uppbótartíma var að ljúka að Nabweteme fullkomnaði verk varamannsins þegar hún skoraði sigurmarkið, með síðustu spyrnu leiksins. Fín frammistaða það á rúmum 20 mínútum!

„Þetta var karakterssigur. Vorum ekki að spila okkar besta leik en það var sterkt að koma til baka og taka stigin þrjú,“ sagði Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, við Akureyri.net í kvöld. „Þetta var stál í stál lengst af en mér fannst við sprækari á lokakaflanum. Skiptingarnar okkar virkuðu vel og við breyttum aðeins um leikkerfi sem gekk upp. Við fengum klárlega færi til að klára þetta fyrr en mér fannst þetta bara verðskuldaður sigur.“

Þór/KA er komið upp í miðja deild með sex stig eftir fimm leiki.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.

Sigri hrósandi leikmenn Þórs/KA eftir leikinn á Sauðárkróki í kvöld. Þeir héldu upp nýja varabúninga liðsins með sigri!

Saga Sigurðardóttir, til vinstri, fagnaði 22 ára afmæli í dag og Margrét Árnadóttir tók þátt í fyrsta leiknum í marga mánuði eftir fótbrot.