Fara í efni
KA

Samstarf Þórs/KA og Völsungs innsiglað

Ljósmyndir: Haraldur Ingólfsson

Kvennaráð Þórs/KA í knattspyrnu og Völsungur eru að hefja samstarf sem snýr að þróun ungra leikmanna, samvinnu þjálfara, sameiginlegu liði 2. flokks U20 og fleiru, að því er fram kemur í frétt á thorka.is. Samstarfið var innsiglað með sameiginlegri æfingu meistaraflokks Völsungs og meistaraflokks og 2. flokks Þórs/KA á Húsavík síðdegis í gær. Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, greinir frá samstarfinu á heimasíðu Þórs/KA.

Þór/KA og Völsungur hafa átt í óformlegu samstarfi í vetur og meðal annars spiluðu nokkrar stelpur úr Þór/KA leiki með Völsungsliðinu í Kjarnafæðismótinu, án þess að hafa félagaskipti, eins og reyndar hefur verið gert undanfarin ár þegar Húsvíkinga hefur vantað leikmenn. Í Lengjubikar eru gerðar strangari kröfur og þegar Völsungur hóf leik í C-deild Lengjubikarsins í byrjun mars höfðu fyrst fimm leikmenn úr Þór/KA félagaskipti yfir í Völsung og svo tvær til viðbótar, alls sjö stelpur á aldrinum 17-19 ára. Völsungsliðið gerði sér svo lítið fyrir og hampaði bikar núna í lok apríl þegar liðið sigraði Fjölni í vítaspyrnukeppni eftir 1:1 jafntefli í úrslitaleik C-deildar Lengjubikarsins.

Í fréttinni á thorka.is koma meðal annars fram eftirfarandi puntkar, sem Jóhann Kristinn segir einnig frá í sínum pistli:

  • Samstarfið snýst um að leikmenn frá okkur í Þór/KA leika með Völsungi í 2. deildinni og styrkja þar með liðið og ná sér í dýrmæta leikreynslu sem bætir þær og styrkir okkar lið í framtíðinni.
  • Þjálfurum Völsungs stendur til boða að kynna sér starfið og fylgjast með undirbúningi fyrir leik í Bestu deildinni. Samstarf og samvinna þjálfara félaganna verður virk og gegnum video og samráð verður vel fylgst með okkar leikmönnum sem taka þátt í leikjum Völsungs.
  • Okkar leikmenn eru einnig gjaldgengar með U20 hjá Þór/KA í mótum sumarsins.
  • Leikmenn Völsungs sem eru í skóla á Akureyri eiga möguleika að æfa með Þór/KA.
  • Þegar efnilegir leikmenn Völsungs koma upp og þyrftu að máta sig við hærra getustig er Þór/KA þeirra fyrsta skref.

Pistill Jóhanns Kristins

Fréttin á thorka.is

Leikmenn Þórs/KA og Völsungs saman á æfingu á Húsavík í gær.