Fara í efni
KA

Rut ólétt og verður ekki með á HM

Handboltahjónin Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Ólafur Gústafsson ásamt syninum Gústafi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Rut Arnfjörð Jónsdóttir, leikmaður KA/Þórs og fyrirliði landsliðsins í handbolta síðustu ár, er ólétt og því næsta víst að hún leikur ekki með Íslandi á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Danmörku, Noregi og Svíþjóð í vetur.

Rut á von á sér undir lok ársins og HM fer fram frá 29. nóvember til 17. desember.

Þá er óljóst hvort eða hversu mikið Rut getur leikið með KA/þór næsta vetur. Eiginmaður Rutar er Ólafur Gústafsson, leikmaður handboltaliðs KA, og eiga þau einn son, Gústaf.

Unnur Ómarsdóttir, landsliðskona úr KA/Þór, er einnig ólétt eins og Akureyri.net hefur áður greint frá. Unnur á von á sér í september þannig að ólíklegt verður að teljast að hún leiki með á HM.

Íslandi var á dögunum úthlutað öðru tveggja boðssæta á HM og tekur þátt í stórmóti í fyrsta sinn síðan árið 2012. Dregið verður í riðla fyrir HM í dag í Gautaborg.