Fara í efni
KA

Rimman við Eyjamenn hefst í KA-heimilinu

Rut Jónsdóttir, sennilega besti leikmaður Olísdeildarinnar í vetur, fagnar marki gegn Val. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Undanúrslit Íslandsmóts kvenna í handbolta, Olísdeildarinnar, hefjast í dag þegar deildarmeistarar KA/Þórs taka á móti ÍBV í KA-heimilinu og Fram og Valur mætast í Framheimilinu. Flautað verður til leiks 13.30 á Akureyri en 15.00 í Reykjavík.

KA/Þór og Fram fengu bæði 21 stig í deildinni en Stelpurnar okkar höfðu betur í innbyrðisviðureignum og urðu því deildarmeistarar, Valur var með 17 stig og ÍBV 16.

Sex lið komust í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en tvö þau efstu sátu hjá. Valur sló þá út lið Hauka með tveimur sigrum og Eyjamenn unnu Stjörnuna í tvígang.

Búast má við hörkuleik í KA-heimilinu í dag því Eyjamenn eru með gott lið og báðar viðureignir KA/Þórs og ÍBV í vetur voru hnífjafnar og spennandi.

Fyrri leikurinn, í Eyjum, endaði með jafntefli 21:21 um miðjan september. Rakel Sara Elvarsdóttir jafnaði þá eftir hraðaupphlaup þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir, hraður og spennandi dans var stiginn það sem eftir lifði leiks en hvorugu liðinu tókst að bæta við marki. Aldís Ásta Heimisdóttir gerði 6 mörk í Eyjum og Rut Jónsdóttir 5.

KA/Þór vann svo heimaleikinn með eins marks mun, 24:23, snemma í febrúar, eftir að gestirnir voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 11:8. Ásdís Guðmundsdóttir var þá markahæst heimamanna með 7 mörk (4 víti) og Rut Jónsdóttir gerði 5 (1 víti). Það var einnig hörkuleikur og Ásdís gerði sigurmarkið úr víti á næst síðustu mínútunni.

Næstu leikir verða á miðvikudaginn þegar KA/Þór fer til Eyja og Reykjavíkurliðin mætast aftur, og liðin mætast þriðja sinni næsta laugardag, í KA-heimilinu og Framhúsinu. Þrjá sigra þarf til að komast í úrslit. Allir leikir í úrslitakeppninni verða í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.

Ásdís Guðmundsdóttir og Aldís Ásta Heimisdóttir hafa báðar leikið mjög vel í vetur. Ljósmyndir: Þórir Tryggvason og Skapti Hallgrímsson.