Fara í efni
KA

Rautt spjald og 12 gul í jafntefli KA og KR

Hallgrímur Mar Steingrímsson kom við sögu hjá KA í fyrsta skipti í sumar. Hann veiktist illa skömmu áður en Íslandsmótið hófst og afar ánægjulegt var að sjá hann mættan til leiks; Hallgrímur lék seinni hálfleikinn. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA og KR gerðu 1:1 jafntefli í Bestu deildinni í knattspyrnu á Greifavelli KA-manna í gær. KA er nú með tvö stig að loknum fimm leikjum en KR með sjö stig.

KR-ingar byrjuðu af miklum krafti, skoruðu snemma og klúðruðu víti fljótlega eftir það en Steinþór Már Auðunsson markvörður KA varði með glæsibrag. Þá voru aðeins liðnar sjö mínútur af leiknum.

KA-menn hresstust þegar á leið fyrri hálfleikinn, sá seinni var betri af þeirra hálfu, þeir jöfnuðu þegar um 20 mínútur voru eftir og sóttu linnulítið eftir það, enda orðnir einum fleiri. Þeir fengu ágæt færi til að skora meira en tókst ekki. 

Steinþór Már Auðunsson kom í veg fyrir að KR næði tveggja marka forystu snemma leiks með því að verja vítaspyrnu með glæsilegum hætti. Mynd: Skapti Hallgrímsson

VÖRN KA Í GÆR Hrannar Björn Steingrímsson hægri bakvörður, Hans Viktor Guðmundsson og Rodrigo Gomes miðverðir, og Ívar Örn Árnason vinstri bakvörður. Rodri leikur nánast alltaf sem aftasti miðjumaður en var færður í vörnina og Ívar í stöðu bakvarðar. Eftir vandræðagang í byrjun gekk þessi uppstilling vel upp. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Gestirnir byrjuðu með látum og Atli Sigurjónsson kom þeim yfir með laglegu skoti frá vítateig strax á 3. mínútu; snéri boltanum framhjá Ívari Erni Árnasyni og skotið var óverjandi fyrir Steinþór Má. Vandræði KA héldu áfram og eftir aðeins sjö mínútur braut Ívar klaufalega á áðurnefndum Atla, vítaspyrna dæmd og Benóný Breki Andrésson fékk það verkefni að taka vítið. Skot hans var fast og út við stöng en Steinþór Már Auðunsson markvörður varði glæsilega. Hann hefur náð stöðunni af Kristijan Jajalo á ný og staðið í markinu í tveimur síðustu deildarleikjum.

Guy Smit markvörður brýtur á Ásgeir Sigurgeirssyni utan við vítateiginn vinstra megin - á hægri kanti sóknarliðsins - á 71. mínútu. Ásgeir spratt strax á fætur eftir byltuna og hugðist bruna að marki en dómarinn flautaði um leið og Smit braut af sér og gaf honum gult spjald. Rauða spjaldið fór ekki á loft því Ásgeir var ekki á leið að markinu þegar brotið var á honum. Mynd: Skapti Hallgrímsson 

Leikurinn jafnaðist um miðjan fyrri hálfleikinn og á lokakaflanum sóttu KA-menn mjög en sköpuðu þó ekki mikla hættu við mark gestanna.

Hallgrímur Mar Steingrímsson leysti Harley Willard af hólmi þegar seinni hálfleikurinn hófst og átti eftir að hleypa lífi í sóknarleik KA. Hann veiktist illa skömmu fyrir mót, er alls ekki kominn í sitt besta form en var þó ekki lengi að minna á sig. Aðeins voru nokkrar mín. liðnar þegar Hallgrímur gaf fyrir markið og Elfar Árni var í mjög góðu færi en varnarjaxlinn Axel Óskar Andrésson henti sér fyrir skotið.

KA-menn ógnuðu áfram marki KR-inga og það var svo á 77. mín. sem Ásgeir Sigurgeirsson fyrirliði jafnaði með föstum skalla eftir frábæra sendingu Hans Viktors Guðmundssonar inn á vítateig.

Ásgeir Sigurgeirsson horfir á eftir boltanum í netið eftir glæsilegan skalla á 77. mín. og flýtir sér síðan að sækja hann í markið. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Sigurpáll Sören Ingólfsson markvörður KR kom engum vörnum við. Hann hafði ekki verið innan vallar nema í um það bil tvær mínútur; kom af varamannabekknum eftir að Guy Smit var rekinn af velli. Skammt var stórra högga á milli hjá Smit. Hann fékk gult spjald fá 71. mín. Óð þá út úr teignum og braut á Ásgeiri fyrirliða, Ásgeir spratt strax á fætur eftir byltuna og hugðist bruna að marki en dómarinn flautaði um leið og Smit braut af sér og gaf honum gult spjald. Rauða spjaldið fór ekki á loft því Ásgeir var ekki á leið að marki þegar brotið var á honum.

Fljótlega eftir aukaspyrnuna fór boltinn aftur fyrir endamörk og Smit var svo lengi að taka markspyrnuna að dómarinn sýndi honum gula spjaldið aftur, fyrir töf, og þar með það rauða! Smit hvarf því af vettvangi. Afar heimskulegt hjá markverðinum.

GULT - RAUTT - BLESS! Dómarinn, Twana Ahmed, sýnir Guy Smit gula spjaldið öðru sinni þar með hið rauða. Mynd: Skapti Hallgrímsson

... þangað til rauða spjaldið fer á loft! Guy Smit gengur af velli undir vökulu auga Bónus-gríssins. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Dómarinn, Twana Khalid Ahmed, hafði gaman af því að sækja spjöldin í vasann; veifaði því gula 12 sinnum alls og rauðu einu sinni. Hugsanlega réttar ákvarðanir í öll skiptin en framan af leik virkuðu þó sum spjöldin ódýr, eins og stundum er sagt. En það er þetta með nýju áherslurnar; ekki er víst að aðrir en dómaramenntaðir séu með þær á hreinu enn sem komið er.

Elfar Árni Aðalsteinsson fékk tvö góð færi, Guy smit varði vel frá honum í fyrri hálfleik og varnarmaður henti sér fyrir skot Elfars í seinni hálfleiks. Framherjinn barðist eins og ljón þar til hann fór af velli eftir klukkutíma leik. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn byrjuðu afleitlega en geta vel unað við margt í gær, einkum í seinni hálfleik, en sem fyrr gengur þeim illa að nýta marktækifærin. Það er áhyggjuefni.

Viðar „er að vinna í sínum málum“

Athygli vakti að framherjinn Viðar Örn Kjartansson, sem gekk til liðs við KA skömmu áður en Íslandsmótið hófst, var ekki í leikmannahópnum í gær. „Hann er bara ekki í hóp. Hann er að vinna í sín­um mál­um varðandi form og fleira," sagði Hall­grím­ur Jónas­son þjálf­ari KA um fjar­veru Viðars við Stöð 2 sport fyr­ir leik.

Viðar hafði komið við sögu í öllum fjórum leikjum KA í mótinu þar til í gær; kom inn á sem varamaður í öll skiptin en hafði sama og ekkert fram að færa og hefur ekki skorað.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.