Fara í efni
KA

Óvíst hvar Sveinn Margeir leikur næsta ár

Kærustuparið Sveinn Margeir og Bjarney Sara Bjarnadóttir á Keflavíkurflugvelli áður en hann hélt utan á dögunum. Bjarney Sara er einnig á leið til náms í Los Angeles.

Óljóst er hvar KA-maðurinn Sveinn Margeir Hauksson reimar á sig knattspyrnuskóna næsta sumar. Hann er floginn vestur um haf til náms í UCLA háskólanum í Los Angeles – University of Californa Los Angeles – eins og Akureyri.net greindi frá í vikunni. 

Sveinn Margeir er á 23. aldursári, fæddur 2001, og fer í nám á meistarastigi í fjármálaverkfræði – mastersnám. „Námið er 15 mánuðir. Næsta sumar ber mér skylda til að taka eitthvert starfsnám og í raun er allt opið með það. Ég gæti tekið það á Akureyri en líka einhvers staðar í Bandaríkjunum eða annars staðar í heiminum,“ segir Sveinn Margeir við Akureyri.net. „Það kemur bara í ljós hvar ég verð.“

Hann gat valið á milli nokkurra frábærra bandarískra háskóla. „Ég var mjög heppinn því mér bauðst mjög góður skólastyrkur,“ segir Sveinn Margeir. „Það var ekki hægt að hafna þessu góða tækifæri.“

Kærasta Sveins Margeirs, Bjarney Sara Bjarnadóttir, er einnig á leið til Kaliforníu í háskólanám. „Það er frábært að hún komst líka í skóla hér. Gæti ekki verið betra.“

Birgir Baldvinsson, til vinstri, og Sveinn Margeir Hauksson eftir síðasta leikinn með KA í sumar, 1:0 sigur á Víkingi á heimavelli. Lið þeirra leika í sömu deild bandarísku háskólakeppninnar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þessi sókndjarfi leikmaður segir heppilegt að hann ákvað að fara utan eftir grunnám. Hann nam við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan í vor. „Þess vegna hef ég getað sýnt mig aðeins meira í deildinni hér heima. Flestir sem fara út eru 18 ára en reynslan skipti miklu máli, ég gat valið á milli nokkurra skóla sem leituðu sér að leikmanni með reynslu og þegar mér bauðst að fara í UCLA var erfitt að hafna honum; bæðið er námið frábært og liðið í topp klassa.“

Lið skólans, UCLA Bruins, leikur vitaskuld í efstu deild háskólakeppninnar. Svo skemmtilega vill til að samherji hans í KA, varnarmaðurinn Birgir Baldvinsson, leikur í sömu deild með liði University of Wisconsin þar sem hann er í mastersnámi í iðnaðarverkfræði. Þeir eigast því væntanlega við í vetur.

„Þetta er mjög spennandi,“ segir Sveinn Margeir spurður um framhaldið. Hann kveðst hafa áhuga á að leika knattspyrnu erlendis að náminu við UCLA loknu, hvort sem það verður í Bandaríkjunum eða í Evrópu. „Ég fer út með það í huga að gera mitt besta, bæði í fótboltanum og náminu og þá gerist bara það sem maður á skilið!“