Fara í efni
KA

Óttast að Einar Birgir hafi slitið liðbönd

Einar Birgir Stefánsson í „aðflugi“ í leik gegn FH á dögunum. Hann meiddist gegn Gróttu í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Óttast er að liðbönd hafi slitnað í ökkla Einars Birgis Stefánssonar, línumannsins öfluga í handboltaliði KA, í leiknum gegn Gróttu í gær. Hann sneri sig mjög illa seint í fyrri hálfleik og var fluttur á sjúkrahús.

Einar var myndaður í gær og þá kom í ljós að hann er ekki brotinn. Ökklinn verður myndaður á ný þegar bólga minnkar en ljóst er að Einar leikur ekki á ný fyrr en eftir áramót. KA á aðeins einn leik eftir á þessu ári, gegn Haukum í KA-heimilinu næsta laugardag.

Færeyingurinn Allan Norðberg sem tognaði aftan í læri og hefur verið frá um hríð verður hugsanlega leikfær á laugardaginn en það stendur þó tæpt.

Ólafur Gústafsson hefur ekkert leikið með KA í vetur. Hann fór í mikla aðgerð á ökkla í lok ágúst og ætti að verða klár í slaginn eftir áramót. Fyrsti leikur KA á nýju ári er ekki á dagskrá fyrr en 5. febrúar þegar Hörður frá Ísafirði kemur í heimsókn.