Fara í efni
KA

Ótrúlegt ævintýri og KA í bikarúrslit

KA-menn ærðust af gleði eftir að Rodri, fyrir miðri mynd, tryggði þeim sæti í bikarúrslitunum þegar hann skoraði úr síðasta vítinu. Hér hlaupa nokkrir hetjanna í átt að dyggum stuðningsmönnum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn eru komnir í úrslit bikarkeppni karla í fótbolta, Mjólkurbikarkeppninnar, eftir magnaðan 6:4 sigur á liði Breiðabliks í ótrúlegri  vítaspyrnukeppni (3:3 eftir framlengingu) á heimavelli í kvöld. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2004 að KA kemst í bikarúrslit.

Leikurinn byrjaði fremur rólega og bæði lið virtust taugaóstyrk enda mikið í húfi. Gestirnir úr Kópavogi voru hættulegri í fyrri hálfleik og nokkrum sinnum nálægt því að skora en Kristijan Jajalo varði oft á tíðum vel í markinu. Staðan var markalaus þegar flautað var til hálfleiks. 

  • Í seinni hálfleik fór að draga til tíðinda. KA-menn komust 1:0 yfir á 56. mínútu með marki frá Ásgeiri Sigurgeirssyni. Ásgeir var fyrstur á lausan bolta í teignum eftir skot frá Jakobi Snæ.
  • Eftir þetta féll KA liðið til baka á meðan gestirnir reyndu hvað þeir gátu til að jafna og eftir því sem leið á jókst sóknarþungi gestanna. Það var ekki fyrr en á 87. mínútu leiksins að Klæmint Olsen sem hafði komið inn á sem varamaður jafnaði fyrir Breiðablik.
  • Aðeins fimm mínútum síðar, þegar komið var fram í uppbótartíma kom Höskuldur Gunnlaugsson gestunum í 2:1 forystu með frábæru marki úr aukaspyrnu rétt utan teigs. Þarna voru aðeins þrjár mínútur eftir af uppbótartíma og allt stefndi í sigur Breiðabliks. 
  • Á loka andartökum leiksins fengu heimamenn hornspyrnu. Eftir klafs í teignum var það Ívar Örn Árnason sem náði að koma boltanum yfir línuna. Staðan orðin 2:2 og allt ætlaði um koll að keyra á pöllunum. Gestirnir fengu að taka miðju en síðan flautaði Ívar Orri, dómari leiksins til leiksloka. 
  • Það var rólegt yfir í framlengingunni en þreyta var farin að segja til sín hjá báðum liðum. Það var komið fram á 104. mínútu leiksins þegar Blikar fengu umdeilda vítaspyrnu. Davíð Ingvarsson var felldur af Pætur Petersen og Ívar Orri benti á punktinn. Höskuldur Gunnlaugsson skoraði af öryggi úr spyrnunni og staðan orðin 3:2 gestunum í vil.
  • En eins og í venjulegum leiktíma neituðu KA-menn að gefast upp og á 117. mínútu jafnaði Pætur Petersen með skalla eftir góðan undirbúning frá Ingimar Stöle. Staðan því 3:3 og þannig var hún að lokinni framlengingu og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.
  • Í vítaspyrnukeppninni klúðruðu Blikar þremur spyrnum en KA-menn  tveimur. Rodrigo Gomes Matteo, sem lék vel í dag, skoraði úr spyrnunni sem tryggði KA-mönnum sæti í bikarúrslitaleiknum; hann sendi Anton Ara markvörð í vitlaust og skoraði örugglega við. Við tóku mikil fagnaðarlæti enda í fyrsta sinn í 19 ár sem KA-menn munu leika í bikarúrslitum. 

Úrslitaleikurinn fer fram á Laugardalsvelli 26. ágúst næstkomandi. Það verða annað hvort Víkingar frá Reykjavík eða KR sem verða andstæðingar KA í leiknum en seinni undanúrslitaleikurinn hefur enn ekki farið fram.

Nánar á eftir

Úrslitamarkið! Rodrigo Gomes Matteo skorar örugglega úr síðasta vítinu og tryggði KA sæti í bikarúrslitaleiknum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Leikmenn KA og stuðningsmenn fögnuðu gríðarlega eftir að úrslitin lágu fyrir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson