Fara í efni
KA

Ótrúlega auðvelt hjá KA – Þór lá á Selfossi

Ólafur Gústafsson í baráttu við varnarmenn ÍR í dag. Hann var öflugur, ekki síst í vörninni. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Akureyrarliðin í handbolta áttu misjöfnu gengi að fagna í dag, í Olís-deildinni í handbolta – enda andstæðingarnir sennilega eins misjafnir og hugsast getur. KA-menn unnu stórsigur á ÍR, slakasta liði deildarinnar til þessa, í KA-heimilinu en Þórsarar áttu hins vegar aldrei möguleika á útivelli gegn Selfyssingum, sem margir telja besta lið landsins um þessar mundir.

KA vann ÍR með sextán marka mun, 32:16! KA-menn eru þar með komnir með sjö stig eftir jafn marga leiki en ÍR-ingar eru hins vegar án stiga á botninum. Tölurnar segja einfaldlega allt sem segja þarf um þessa viðureign.

Tíu mörk KA í röð!

ÍR komst einu sinni yfir í leiknum, 2:1 en eftir það hafði KA tögl og hagldir. Staðan var „aðeins“ 15:9 í hálfleik en yfirburðirnir í seinni hálfleik voru með ólíkindum; þegar rúmt korter var eftir var staðan 22:15 en KA gerði næstu 10 mörk! ÍR-ingar skoruðu ekki í tæpar 16 mínútur; 15 mínútur og 55 sekúndur voru frá 15. marki gestanna til þess 16 og síðasta, hálfri mínútu fyrir leikslok.

Mörk KA: Árni Bragi Eyjólfsson 6, Patrekur Stefánsson 4, Áki Egilsnes 4, Einar Birgir Stefánsson 4, Jóhann Geir Sævarsson 3, Ólafur Gústafsson 3, Allan Norðberg 3, Andri Snær Stefánsson 1, Sigþór Gunnar Jónsson 1, Daði Jónsson 1, Jón Heiðar Sigurðsson 1 og Þorri Starrason 1.

Nicholas Satchwell varði 17 skot í leiknum.

Erfitt hjá Þórsurum

Þórsarar töpuðu á Selfossi, 33:24, eftir að staðan var 20:12 í hálfleik. Selfyssingar komust í 3:0 og þá varð strax ljóst að róðurinn yrði afar erfiður fyrir Þórsara. Átta mörkum munaði í hálfleik, sem fyrr segir, en norðanmenn komu skemmtilegt á óvart í upphafi síðari hálfleiks, gerðu fimm mörk gegn einu og staðan þá 21:17, en eftir að Selfyssingar tóku leikhlé hrukku þeir aftur í gang.

Þess verður að geta að Þórsarar léku án þriggja lykilmanna í dag; Þórður Tandri Ágústs­son og Aðal­steinn Ern­ir Bergþórs­son eru meiddir og fóru ekki með, auk þess sem leikstjórnandinn Valþór Atli Guðrúnarson fór úr axl­arlið gegn Val um daginn og óljóst hvort og þá hvenær hann verður leikfær á ný. 

Mörk Þórs: Arnþór Gylfi Finnsson 5, Igor Kopyshynskyi 5, Hafþór Ingi Halldórsson 4, Arnór Þorri Þorsteinsson 3, Sigurður Már Steinþórsson 2, Heimir Pálsson 1, Garðar Már Jónsson 1, Sigurður Kristófer Skjaldarson 1, Gísli Jörgen Gíslason 1 og Karolis Stropus 1.